Tvífari Kim Jong-Un er götusali

Hann er þybbinn og kringluleitur, með hárið greitt í píku. Honum svipar óneitanlega til einræðisherrans í einu síðasta alræðisríki heims, Norður-Kóreu. Hann er reyndar bara götusali í Kína, en líkindin við Kim Jong-Un hafa gert hann að netstjörnu í heimalandinu á einni nóttu.

Nafn hans hefur ekki verið birt, en þeim mun fleiri myndir. Hann rekur matsölustand í borginni Shenyang, í norðausturhluta Kína, ekki fjarri landamærunum við Norður-Kóreu. Ljósmynd af honum grillandi kjötbita fór eins og eldur í sinu milli kínverskra netnotenda um helgina. Í kjölfarið hafa ýmsir lagt leið sína í sölustandinn til að taka af sér sjálfsmynd með tvífara Kims Jong-Uns.

Líkindin eru þeim mun meiri vegna þess að þeir virðast hafa áþekkan fatasmekk. Óþekkti götusalinn klæðist líka gjarnan dökkum jakka með háum, upphnepptum kraga. Báðir eru líka reykingamenn.

„Loksins kominn með launaða vinnu“

Götusalinn lifir þó öllu fábrotnara lífi en einræðisherrann. Nú um helgina voru teknar af honum myndir á litlum plaststól, bograndi yfir eldamennsku í vegkantinum. Tvífari hans í Norður-Kóreu er þekktur fyrir hið gagnstæða, íburð og lúxus.

Þúsundir kínverskra netverja skemmtu sér yfir myndunum á samfélagsvefnum Sina Weibo um helgina. Kim er þekktur í Kína undir uppnefninu „Feiti hinn þriðji“, með vísan til líkamsvaxtar hans, föður hans og afa.

„Loksins er Feiti hinn þriðji kominn með launaða vinnu!“ sagði einn netverjinn og annar leiddi að því líkum að götusalinn mætti eiga von á atvinnutilboði frá Norður-Kóreu sem tvífari.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert