Gögnin líklega í höndum Rússa

Edward Snowden.
Edward Snowden. AFP

Mikið af þeim trúnaðargögnum sem bandaríski uppljóstrarinn Edward Snowden tók með sér frá Bandaríkjunum á síðasta ári er líklega í höndum rússneskra leyniþjónustumanna. Þetta er haft eftir bandaríska þingmanninum Mike Rogers í frétt AFP en hann er formaður nefndar fulltrúadeildar Bandaríkjaþings um leyniþjónustumál.

Ennfremur er haft eftir Rogers, sem ræddi í dag við blaðamenn um málið, að 95% af gögnunum snúist um hernaðarmál sem líklega séu komin í hendur Rússa. Rússar geti haft mikið gagn af þessum upplýsingum sem og kínverski herinn. Hann vísaði í því sambandi í skýrslu frá bandaríska varnarmálaráðuneytinu þess efnis að hluti af gögnunum eða öll þeirra væru nú í höndum Rússa.

Þá segir í fréttinni að varnarmálaráðuneytið telji að Snowden hafi komist undan með um 1,7 milljónir skjala. Hann hefur frá því á síðasta ári verið staddur í Rússlandi þar sem honum var veitt tímabundið hæli. Bandaríkin hafa krafist framsals hans vegna ákæru fyrir að hafa stolið umræddum trúnaðargögnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert