Klitsjkó býður sig ekki fram

Vitalí Klitsjkó heilsar hér upp á Francois Hollande, forseta Frakklands.
Vitalí Klitsjkó heilsar hér upp á Francois Hollande, forseta Frakklands. Mynd/AFP

Í lok febrúar gaf fyrrverandi boxarinn Vitalí Klitsjkó það út að hann myndi sækjast eftir forsetaembættinu í Úkraínu í næstu kosningum. Í dag gaf hann það hins vegar út að hann væri hættur við og myndi frekar styðja Petro Pórósjenkó í framboði sínu. 

„Við verðum að tilnefna einn fulltrúa okkar frá lýðræðislegu öflunum. Það verður að vera einstaklingur sem nýtur mests trausts á meðal þjóðarinnar. Í dag er það Pórósjenkó,“ sagði Klitsjkó. Klitsjkó er fyrrverandi heimsmeistari í boxi í þungavigt og átti hann stóran þátt í mótmælunum í Úkraínu sem enduðu með því að Viktor Janúkóvitsj sagði af sér. Pórósjenko hins vegar er þekktur í heimalandinu sem „súkkulaðikóngurinn“ vegna þess að hann hefur auðgast gríðarlega á sælgætisveldi sínu og er í dag einn ríkasti maður landsins. Hann hefur enn fremur stutt fjárhagslega vel við bakið á hinni appelsínugulu byltingu sem hefur átt sér stað í landinu á undanförnum árum og hefur áður gegnt mikilvægum embættum. 

Mótframbjóðandi Tímósjenkó

Pórósjenkó staðfesti við fjölmiðla í Úkraínu í gær að hann myndi sækjast eftir forsetaembættinu. „Við þurfum nýjan, skilvirkari og nútímalegri úkraínskan her sem getur varið sjálfstæði okkar og stöðu á alþjóðavísu,“ sagði hann í ræðu sinni. 

Talið er að helsti mótframbjóðendi Pórósjenkós í forsetakosningunum verði Júlía Tímósjenkó, fyrrverandi forseti landsins. Henni var nýverið sleppt úr fangelsi þar sem hún hafði setið í tvö ár. Nýjustu tölur sýna að Pórósjenkó hafi töluverða forystu á Tímósjenkó en kosið verður 25. maí. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert