Flóðbylgjan gæti náð til Indónesíu

Flóðbylgja af völdum jarðskjálftans í Síle gæti náð til Indónesíu í kvöld en yfirvöld þar í landi hafa beðið almenning um að vera í viðbragðsstöðu. Talið er að hún geti verið komin þúsundir kílómetra frá Síle til héraðsins Papua í Indónesíu um tíuleytið í kvöld.

Í frétt AFP segir að yfirvöld í Indónesíu hafi hvatt yfirvöld í nítján héruðum í landinu til að grípa til ráðstafana. Fólk verði að halda sig frá ströndinni. Hætta er á því að flóðbylgjan muni einnig ná til ferðamanneyjanna Jövu, Bali, Borneo og Sulawesi.

Jarðskjálftinn, sem mældist 8,2 stig, reið yfir norðurhluta landsins klukkan 20:46 að staðartíma, eða 23:46 á íslenskum tíma, í gærkvöldi. Upptök hans voru í um 86 kílómetra fjarlægð norðvestur af námasvæðinu í Iquique.

Forseti Síle, Michelle Bachelet, lýsti í morgun yfir neyðarástandi í þremur héruðum landsins, Arica, Parinacota og Tarapaca. Verður herinn sendur þangað til þess að koma í veg fyrir ringulreið og þjófnaði. Hún mun sjálf heimsækja hamfarasvæðið síðar.

Að minnsta kosti sex létu lífið og tugir þúsunda íbúa í norðurhluta landsins hafa þurft að yfirgefa heimili sín, að því er segir í frétt breska ríkisútvarpsins.

Lögreglan leitar nú að yfir 300 föngum sem flúðu kvennafangelsið í Iquique í kjölfar skjálftans, en að sögn innanríkisráðherrans í Síle hefur hún aðeins fundið 26 fanga hingað til. 

Mikil skelfing greip um sig meðal íbúa sem þustu út á götur eftir að skjálftinn reið yfir. Stjórnvöld fyrirskipuðu fólki að flýja sem fyrst af láglendi. 

Frétt mbl.is: Neyðarástand í þremur héruðum

Frétt mbl.is: Mannskæður skjálfti í Síle

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert