Tvær fréttakonur skotnar í Afganistan

Tvær vestrænar fréttakonur voru skotnar fyrir skömmu í austurhluta Afganistan. Önnur þeirra er látin en hin er alvarlega slösuð, samkvæmt fyrstu fréttum af árásinni.

Samkvæmt frétt Reuters átti árásin sér stað í litlum bæ skammt frá landamærum Pakistan.

Talsmaður lögreglunnar í Khost héraði, Mobarez Mohammad Zadran, segir í samtali við AFP fréttastofuna að konurnar hafi verið í höfuðstöðvum lögreglunnar í héraðinu þegar ráðist var á þær. 

Gríðarleg spenna er í landinu vegna forseta- og héraðsþingskosningarnar fara fram á morgun. Kosningarnar eru taldar prófsteinn á framfarir í landinu eftir að talibönum var komið frá árið 2001. Átta frambjóðendur eru til embættis forseta en Hamid Karzai, forseti, hyggst láta af embætti. Búist er við að seinni umferð kosninganna þar sem kosið verður á milli tveggja efstu frambjóðendanna verði haldin í seinni hluta maí.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu í Khost var árásarmaðurinn í lögreglubúningi. Konan er annar vestræni fréttamaðurinn sem er drepinn í aðdraganda kosninganna. Þann 11. mars var sænski fréttamaðurinn Nils Horner skotinn til bana í Kabúl.

Ekki er langt síðan fréttamaður AFP Sardar Ahmad var skotinn til bana ásamt eiginkonu og þremur ungum börnum á veitingastað á hóteli í Kabúl. Árásarmennirnir höfðu þar náð að smygla inn vopnum á Serena hótelið en þar er gríðarleg öryggisgæsla. Drápu þeir níu manns, þar af fjóra útlendinga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert