Skömm Sameinuðu þjóðanna mikil

Paul Kagame forseti Rúanda sagði á minningarathöfninni í dag að …
Paul Kagame forseti Rúanda sagði á minningarathöfninni í dag að þjóðarmorðið hefði splundrað Rúanda en 20 árum síðan hefði þjóðinni tekist að sameinast að nýju. AFP

Sameinuðu þjóðirnar blygðast sín enn fyrir að hafa brugðist Rúandamönnum þegar þjóðarmorð var framið í landinu 1994. Þetta sagði Ban Ki-moon í dag, frammi fyrir þúsundum á minningarathöfn í Kigali, höfuðborg Rúanda. 20 ár eru í dag liðin frá upphafi blóðbaðsins.

Athöfnin í Kigali í dag markar upphaf vikulangrar þjóðarsorgar vegna þessara tímamóta. Fram kemur á vef BBC að athöfnin hafi verið afar tilfinningaþrungin, margir hafi brotnað saman og grátið. 

Splundruð þjóð sameinast á ný

Að minnsta kosti 800.000 Rúandamenn, flestir af þjóðflokki Tútsa, voru myrtir af herskáum Hútúum á 100 daga tímabili sem hófst 7. apríl 1994 og endaði í júlí sama ár þegar uppreisnarsveitir Tútsa náðu völdum í landinu. Sjá nánar: 20 ár frá þjóðarmorði í Rúanda

Minningarvikan hófst með því að blómsveigur var lagður á minnisvarða um þjóðarmorðin í höfuðborginni og kveiktur eldur með kyndli, sem hefur ferðast um landið allt síðustu 3 mánuði. Eldurinn mun loga í 100 daga, jafnlengi og blóðbaðið varði.

Þúsundir manna biðu í biðröð klukkustundum saman til að vera viðstaddir minningarathöfnina í dag. Forseti Rúanda, Paul Kagame, sagði í ávarpi sínu að Rúanda hafi verið splundrað með voðaverkunum, en á þeim 20 árum sem liðin eru hafi þjóðinni tekist að sameinast á ný.“

Yfirgáfu landið þegar þörfin var mest

Sameinuðu þjóðirnar brugðust seint við árið 1994 og voru síðar gagnrýndar harðlega fyrir að horfast ekki í augu við að þjóðarmorð átti sér stað. Þegar voðaverkin hófust var ekki gripið inn í, heldur voru friðargæslusveitir þvert á móti sendar heim. 

„Hersveitir voru kallaðar burt frá Rúanda, á þeim tíma þegar þörfin fyrir þær var mest,“ sagði Ban á athöfninni í dag. „Ári síðar í Srebrenica voru svæði, sem Sameinuðu þjóðirnar lýstu yfir að væru örugg, orðin hættusvæði og saklaust fólk var yfirgefið og því slátrað. Við erum ekki laus undan skömminni, einni kynslóð síðar.“

Ban sagði að þjóðarmorðin í Rúanda væru einhver myrkasti kafli í mannkynssögunni. „Í dag stendur Sýrland í ljósum logum og öngþveiti ríkir í Mið-Afríkulýðveldinu. Heimurinn hefur enn ekki náð að sigrast á ágreiningi, tómlæti og siðferðisblindu.“

Hann benti þó á að framfarir hafi orðið og í dag geti ríkisstjórnir ekki lengur haldið því fram að slík grimmdarverk séu bara innanríkismál. Þjóðarleiðtogar og stríðsherrar verði nú að gera ráð fyrir þeim möguleika að þeir verði sóttir til saka fyrir alþjóðlegum dómstólum vegna glæpanna.

Að sögn Ban hafa Sameinuðu þjóðirnar breytt nálgun sinni eftir þessar erfiðu lexíu. „Ég hef sjálfur sent skýr skilaboð til fulltrúa SÞ um allan heim. Mín skilaboð eru einfaldlega þessi: Þegar þú sérð að grimmdarverk vofa yfir, ekki bíða eftir fyrirmælum að ofan. Láttu vita, jafnvel þótt það kunni að móðga einhvern. Gríptu til aðgerða.“

Frakkar fjarri vegna milliríkjadeilu

Ýmsir leiðtogar eru staddir í Rúanda vegna tímamótanna, þar á meðal Tony Blair, fyrrverandi forsætisráðherra Bretlands, sem nú starfar sem ráðgjafi ríkisstjórnar Rúanda, Thabo Mbeki, fyrrverandi forseti Suður-Afríku, og Yoweri Museveni, forseti Úganda.

Frakkar áttu hinsvegar engan fulltrúa á minningarathöfninni þrátt fyrir að það hafi upphaflega staðið til, vegna milliríkjadeilu Frakklands og Rúanda í kjölfar ummæla forsetans um að Frakkar þurfi að horfast í augu við eigin hlutdeild í voðaverkunum. 

Sjá einnig:

Saka Frakka um hlutdeild í þjóðarmorðinu

20 ár frá þjóðarmorði í Rúanda

Kona er borin út af minningarathöfninni á Amahoro-leikvanginum í Kigali …
Kona er borin út af minningarathöfninni á Amahoro-leikvanginum í Kigali eftir að hafa brotnað saman í hömlulausan grát. AFP
Ban Ki-Moon framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna lagði blómsveig við Gizosi-minnisvarðann um …
Ban Ki-Moon framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna lagði blómsveig við Gizosi-minnisvarðann um þjóðarmorðin, í Kigali í Rúanda í morgun. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert