„Öskraði hún þegar þú skaust hana?“

Ekki er hægt að segja annað en að Oscar Pistorius sé nú grillaður í vitnastúkunni af saksóknaranum. „Skynsamur maður“ hefði gert meira til að vernda maka sinn, sagði saksóknarinn á meðan Pistorius barðist við tárin.

Pistorius hefur nú ítrekað neitað því að hafa myrt unnustu sína, Reevu Steenkamp, viljandi. Saksóknarinn hefur þó m.a. krafið hann um að „segja satt“ og „taka ábyrgð“.

Saksóknarinn Gerrie Nel hefur m.a. reynt að rífa í sig vitnisburð Pistorius og sagt nokkra hluti ekki standast. Pistorius viðurkenndi í morgun að hugsanlega hefði hann eitthvað ruglast, þar sem hann væri þreyttur. 

Í morgun sagði Pistorius m.a. frá því að er hann heyrði hljóð í húsi sínu á Valentínusardag í fyrra, hefði hann fyrst hugsað um að vernda Steenkamp. Hann hefði sótt byssu sína undir rúm og beðið Steenkamp að hringja á lögregluna. Síðar hefði hann áttað sig á að hún var ekki í rúminu.

Pistorius segist hafa öskrað á þann sem hann hélt innbrotsþjóf: „Farðu út úr húsi mínu“. Hann segist svo hafa flýtt sér í átt að hljóðinu.

„Öryggið var ekki á byssunni svo að þú vildir skjóta einhvern. Ef þú sást einhvern varstu tilbúinn að skjóta,“ sagði saksóknarinn.

„Ég vildi ekki skjóta neinn,“ svaraði Pistorius. Hann sagðist ekki vita af hverju hann hefði farið til móts við hættuna í stað þess að flýja og koma unnustu sinni í skjól. Hann segist hafa komið hljóðlega að baðherberginu, þaðan sem hljóðið kom því hann hafi jafnvel átt von á að á sig yrði ráðist.

Þegar hann hafi svo heyrt klósetthurðinni skellt hafi hann verið viss um að innbrotsþjófur væri í húsinu.

„Ég var að berjast fyrir lífi mínu, lífi konunnar minnar. Ég var ekki viss um hver var á baðherberginu.“

Saksóknarinn sagðist efast um þann hluta sögunnar að Pistorius hefði hrópað en Steenkamp sem var á baðherberginu hefði ekkert heyrt og engu svarað. „Það er ótrúverðugasti kafli sögu þinnar“.

Svo bætti hann við: „Hún var að tala við þig, það er þess vegna sem hún stóð fyrir framan þig þegar þú skaust hana í höfuðið. Hún var hrædd við þig, ekki innbrotsþjófinn. Hún var hrædd við þig.“

Saksóknarinn lét ekki þar við sitja heldur spurði: „Öskraði hún þegar þú skaust hana fjórum sinnum?“ Pistorius sagðist ekkert hafa heyrt þar sem byssuskotin voru hávær. Saksóknarinn sagði það óhugsandi. 

Ítarleg umfjöllun Sky um málið.

Oscar Pistorius yfirgefur réttarsalinn í dag.
Oscar Pistorius yfirgefur réttarsalinn í dag. AFP
Saksóknarinn Gerrie Nel sýnir Pistorius enga vægð.
Saksóknarinn Gerrie Nel sýnir Pistorius enga vægð. AFP
AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert