Samstarfsmaður Berlusconis handtekinn

Marcello Dell'Utri gæti hlotið sjö ára fangelsisdóm vegna tengsla sinna …
Marcello Dell'Utri gæti hlotið sjö ára fangelsisdóm vegna tengsla sinna við mafíuna á Sikiley. AFP

Náinn samstarfsmaður Silvio Berlusconi, fyrrverandi forsætisráðherra Ítalíu, var handtekinn í Beirút, höfuðborg Líbanon í gær. Hann hafði verið á flótta undan réttvísinni en innan fárra daga mun dómur falla í máli gegn honum sem hefur staðið yfir lengi.

Marcello Dell'Utri hefur verið góður vinur Berlusconis í mörg ár og hann var einn af hans nánustu ráðgjöfum.

Hann var dæmdur fyrir að hafa verið milligöngumaður á milli mafíuforingja á Sikiley og Berlusconi. Dell'Utri áfrýjaði málinu sem er nú komið til hæstaréttar landsins. Verði dómurinn staðfestur má hann búast við að verða dæmdur í sjö ára fangelsi. 

Því er haldið fram að brotin hafi átt sér stað áður en Berlusconi hóf afskipti af stjórnmálum.

Berlusconi og Dell'Utri hafa báðir neitað því að hafa átt í samskiptum við mafínuna. Ekki hefur verið réttað yfir Berlusconi í tengslum við málið. 

Á föstudag lýstu yfirvöld því yfir að Dell'Utri væri flóttamaður en þá hafði ekkert til hans spurst. Dell'Utri sendi síðar frá sér yfirlýsingu þar sem kom fram að hann hefði farið til útlanda til að leita sér læknisaðstoðar. Hann greindi aftur á móti ekki til hvaða lands hann hefði farið. 

Hann er nú í haldi lögreglu í Beirút og munu yfirvöld á Ítalíu fara fram á að hann verði framseldur til heimalandsins. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert