Nokkrum stúlkum tókst að flýja

Brennd farartæki í höfuðborginni Abuja eftir sprengjuárásina þar í gær.
Brennd farartæki í höfuðborginni Abuja eftir sprengjuárásina þar í gær. AFP

Um 15 stúlkum tókst að sleppa úr haldi herskárra íslamista, sem réðust inn í skóla í Nígeríu fyrr í dag og rændu um 100 stúlkum. Þær voru sofandi á heimavist þegar mennirnir réðust til atlögu. Stúlkurnar sem tókst að flýja földu sig í óbyggðum fram í birtingu.

Að sögn nígerískra fjölmiðla létu tveir hermenn lífið og er haft eftir heimamönnum á svæðinu að 170 hús hafi verið brennd til grunna í árásinni. Talið er víst að það séu hryðuverkasamtökin Boko Haram sem standa baki árásinni.

Nafnið Boko Haram þýðir bókstaflega „Vestræn menntun er bönnuð“. Hryðjuverkasamtökin berjast gegn innleiðingu vestrænnar menntunar og gilda í Nígeríu og hafa áður beint árásum sínum að skólum í landinu. Ekki eru þó fordæmi fyrir svo umfangsmiklu mannráni.

Stukku af vörubílnum og hlupu burt

Ekkert hefur heyrst frá stúlkunum sem var rænt né mannræningjunum sjálfum en hersveitir leita þeirra. Afp hefur eftir ónefndum heimildarmanna innan stjórnkerfisins að vörubíllinn sem stúlkurnar voru þvingaðar upp á hafi fundist bilaður í óbyggðum og nú sé reynt að rekja slóðina þaðan.

Nokkrum stúlkum tókst að stökkva af vörubílspallinum á meðan hryðjuverkamennirnir reyndu að gea við bílinn, hlaupa burt og fela sig í skjóli nætur. Þær fundust í birtingu heilar á húfi. Ekki liggur endanlega ljóst fyrir hversu margar stúlkur eru í haldi hryðjuverkamannanna, en talið er að þær séu um 100.

Hryðjuverkasamtökin Boko Haram hafa verið að færa sig upp á skaptið undanfarið. Árásin í skólann gerð aðeins nokkrum klukkustundum eftir að sprengja sprakk við strætóbiðstöð í Abuja með þeim afleiðingum að 75 létu lífið. Var þetta mannskæðasta hryðjuverkárás fyrr og síðar í höfuðborginni.

Evrópusambandið fordæmdi í dag árásir Boko Haram og lýsti Catherine Ashton, utanríkis- og öryggismálastjóri ESB, því yfir að ESB-löndin 28 standi með Nígeríu í baráttunni gegn vaxandi tíðni hryðjuverka.

Sjá einnig: Yfir 100 stúlkum rænt

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert