Pistorius las valentínusarkort frá Steenkamp

Reeva Steenkamp hafði skrifað ástarbréf til Oscars Pistorius til að gefa honum á Valentínusardaginn í fyrra, en af því varð ekki þar sem hann skaut hana til bana. Kortið var lagt fram í réttarsal í dag og las Pistorius upphátt ljóð sem þar var skrifað.

Pistorius neitar því að hafa myrt Steenkamp en segist hafa talið sig vera að skjóta á innbrotsþjóf í sjálfsvörn. Saksóknarar telja hinsvegar að hann hafi skotið hana viljandi í bræðiskasti eftir að þau hafi rifist.

Það var verjandi Pistorius, Barry Roux, sem lagði valentínusarkortið fram í dag. Að utan stóð „rósir eru rauðar, fjólur eru bláar...“ og innan hafði Steenkamp skrifað „Ég held að í dag sé góður dagur til að segja þér að ég elska þig.“

Pistorius hefur áður lýst því yfir við réttarhöldin hann sjái eftir því að hafa aldrei sagt Steenkamp að hann elskaði hana. Þau höfðu enn ekki opnað gjafir og kort hvors annars í tilefni valentínusardagsins þegar Pistorius skaut hana. Að sögn Pistorius treysti hann sér ekki til að opna kortið eftir á fyrr en nokkrum mánuðum síðar, á afmælisdegi Steenkamp í ágúst 2013.

Þetta var lokadagur vitnaleiðsla þar sem Pistorius sjálfur sest í vitnastúkuna. Undir lok dags spurði saksóknari hann hvernig honum hefði liðið þegar hann hafði brotið niður klósetthurðina og sá að það var Steenkamp sem hann skaut.

„Hjarta mitt sprakk...það þyrmdi yfir mig sorgin.“

Oscar Pistorius í réttarsal í Pretoria í dag.
Oscar Pistorius í réttarsal í Pretoria í dag. AFP
Ríkissaksóknarinn Gerrie Nel í réttarsal í dag.
Ríkissaksóknarinn Gerrie Nel í réttarsal í dag. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert