Stúlka handtekin vegna brandara

Wikipedia/Michiel1972

Fjórtán ára gömul hollensk stúlka hefur verið tekin höndum af lögreglunni í borginni Rotterdam í Hollandi eftir að hún sendi skilaboð til bandaríska flugfélagsins American Airlines í gegnum samskiptasíðuna Twitter.

Fram kemur í frétt breska dagblaðsins Daily Telegraph að stúlkan hafi verið handtekin að frumkvæði hollensku lögreglunnar en ekki flugfélagsins. Hún hafi sent skilaboð til þess sem hafi verið hugsuð sem brandari en tekið var sem hótun. Fram kom í skilaboðunum að hún væri meðlimur hryðjuverkasamtakanna al-Kaída og ætlaði að „gera eitthvað mjög stórt“ 1. júní næstkomandi.

Þá segir að American Airlines hafi svarað skilaboðunum á þá leið að flugfélagið „tæki slíkar hótanir mjög alvarlega“ og ætlaði að upplýsa bandarísku alríkislögregluna FBI um samskiptin. Stúlkan hafi þá orðið hrædd og sent fleiri skilaboð þar sem hún útskýrði að um hafi verið að ræða hrekk sem hafi mistekist. „Ég var að grínast og þetta var vinkona mín en ekki ég, takið hennar IP-tölu en ekki mína,“ sagði hún. „Ég er svo hrædd, ég er bara 14 ára hvít stelpa, ég er enginn hryðjuverkamaður.“

Haft er eftir talsmanni American Airlines að öryggi farþega flugfélagsins og áhafna væri í forgangi. “Við tökum öryggismál mjög alvarlega.“ Málið hefur vakið talsverða athygli á internetinu og ekki síst viðbrögð stúlkunnar. Hefur henni borist í kjölfarið fjöldi dónalegra skilaboða í gegnum samfélagsmiðla samkvæmt fréttinni. Þá segir að stúlkan hafi nú eytt Twitter-aðgangi sínum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert