Yfir 100 stúlkum rænt

Árásir íslamista í Nígeríu eru tíðar. Í gær sprakk öflug …
Árásir íslamista í Nígeríu eru tíðar. Í gær sprakk öflug sprengja á biðstöð og fjöldi manns lét lífið. Í dag var ráðist til atlögu við skóla. STR

Hópur íslamista, grár fyrir járnum, rændi mörgum stúlkum úr skóla í Borno-ríki í norðausturhluta Nígeríu. Að því loknu kveiktu þeir í nær hverju húsi í bænum.

„Margar stúlkur voru numdar á brott af þessum byssumönnum sem réðust inn í skólann,“ segir Emmanuel Sam, sem fer fyrir skólaskrifstofunni í bænum Chibok, þar sem árásin átti sér stað.

Í frétt BBC kemur fram að líklega séu stúlkurnar yfir 100 talsins. Talið er að um sé að ræða skæruliða úr Boko Haram-samtökunum sem herjað hafa á íbúa Nígeríu í mörg ár.

Hópurinn bar ábyrgð á sprengjutilræði í höfuðborginni Abuja í gær. Að minnsta kosti 71 maður féll í þeirri árás.

Lögreglan hefur staðfest að stúlkum hafi verið rænt úr skólanum. Þær eru á unglingsaldri. Lögreglan segist hins vegar ekki enn geta staðfest hversu mörgum stúlkum var rænt. Íbúar á svæðinu segjast hafa heyrt byssuskot og sprengingar. Skæruliðarnir komu að næturlagi og smöluðu stúlkunum upp í vörubíla.

Einn nemandi við skólann segist hafa náð að flýja. Hún hafi séð nokkrar bekkjarsystur sínar stökkva af palli vörubílsins er hann lagði af stað. 

Uppfært kl. 18:19: Í upphaflegri frétt var haft eftir BBC að yfir 200 stúlkum hefði verið rænt. Var það byggt á fyrstu frásögnum foreldra á svæðinu. BBC hefur síðan fengið þær upplýsingar frá yfirvöldum í Borno að talið sé að um 100 stúlkum hafi verið rænt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert