Gafst Steenkamp tóm til að öskra?

Oscar Pistorius skaut fjórum skotum í einum rykk þegar hann drap kærustu sína, Reeva Steenkamp, á valentínusardaginn í fyrra. Þetta segir réttarmeinafræðingur sem Pistorius réð til að flytja vitnisburð. Saksóknari reif hann hinsvegar í sig og sagði hann vanhæfan.

Vitnisburður réttarmeinafræðingsins Roger Dixon, sem settist í vitnastúkuna í dag, stangast á við það sem skotfærasérfræðingur lögreglu hafði áður sagt um að stutt hlé hefði verið gert milli þess sem fyrstu tveimur skotunum var hleypt af.

Skiptir máli hvort hlé var á skothríðinni

Pistorius heldur því sjálfur fram að hann hafi stjórnast af ótta við að það væri innbrotsþjófur í húsinu, og skotið hratt án þess að stoppa á baðherbergishurðina, þar sem Steenkamp varð fyrir þeim.

Roger Dixon sagðist í dag telja að Steenkamp hafi snúið síðunni að hurðinni og fengið allar fjórar byssukúlurnar í sig þegar hún féll til jarðar. Fyrir tæpum mánuði kom hinsvegar skotfærasérfræðingurinn Christiaan Mangena fyrir dóminn og sagðist telja að Steenkamp hafi snúið beint að hurðinni, fyrsta skotið hafi farið í mjöðm hennar og hún fallið í gólfið áður en hinum skotunum var hleypt af. Hún hafi aðeins orðið fyrir þremur skotum, þar af einu í höfuðið.

Sjá einnig: Dauðastund Steenkamp rakin

Þetta skiptir máli því saksóknari heldur því fram að Steenkamp hafi öskrað eftir að hún fékk fyrstu kúluna í sig, en Pistorius hafi samt haldið áfram að skjóta, eftir stutt hlé. Vitnisburðurinn í dag stangast á við þetta.

Sá ekki hvort hún var í rúminu

Dixon hélt því einnig fram við vitnaleiðsluna í dag að þegar slökkt sé á ljósunum í svefnherbergi Pistorius sjáist þar varla handa skil. Það styður það sem Pistorius hefur fullyrt, að hann hafi ekki sé hvort Steenkamp var í rúminu eða ekki þegar hann fór fram úr með byssuna.

Saksóknarinn Gerrie Nel hefur gengið afar hart fram við vitnaleiðslurnar og hélt uppteknum hætti í dag. Hann gróf undan trúverðugleika Dixons og lýsti efasemdum um hæfni hans til að bera vitni um réttarmeinafræði. Dixon þessi er menntaður jarðfræðingur en hefur unnið sem yfirmaður greiningardeildar á réttarmeinastofu lögreglu í Pretoriu.

Réttarhöldin halda áfram á morgun en svo verður gert hlé fram yfir páska.

Reeva Steenkamp og Oscar Pistorius í janúar 2013, um mánuði …
Reeva Steenkamp og Oscar Pistorius í janúar 2013, um mánuði áður en hann skaut hana til bana. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert