Hátt í þrjú hundruð farþega saknað

Tveir eru látnir og fleiri en hundrað manns er saknað eftir að ferju hvolfdi í Suður-Kóreu í gærkvöldi. 477 voru um borð, aðallega menntaskólanemar á leiðinni í frí. Fyrst var talið að 368 manns hefði verið bjargað, en nú er talið að tæplega 300 sé saknað og aðeins 180 hafi verið bjargað. Óttast er um líf fólksins sem saknað er.

Myndir frá sjónvarpsstöðvum í landinu sýna skelfingu lostna farþega veifa björgunarvestum og reyna að komast í björgunarbáta á meðan báturinn hverfur smám saman í sjóinn.

Framhaldsskólanemendur á leið í frí

324 farþeganna voru á leið til eyjunnar Jeja í frí. Þetta eru nemendur sem voru á leið í frí ásamt 14 kennurum. Þau látnu eru karlkyns nemandi og kona úr áhöfn skipsins. 

Svo virðist sem mörgum hafi verið bjargað af sjómönnum á fiskveiðibátum sem urðu fyrstir á vettvang. Skip sjóhersins og strandgæslunnar komu einnig á staðinn og sveima þyrlur yfir. Kafarar leita á svæðinu.

Ferjan var 6.825 tonn. Svo virðist sem slysið hafi átt sér stað um 20 kílómetrum frá eyjunni Byunngpoong. 

Ekki er vitað hvað olli slysinu en miðað við framburð þeirra sem bjargað hefur verið gæti skipið hafa strandað.  

Heyrði gríðarlega hátt hljóð

„Það kom mjög hátt hljóð og síðan fór báturinn að hallast á aðra hliðina,“ sagði Kim Song-Muk, einn þeirra sem bjargað var úr skipinu. „Fólk reyndi að komast ofar í skipið, en það var mjög erfitt.“

Sjórinn er rúmar tólf gráður á svæðinu. Um borð voru 150 bifreiðir.

„Ég heyrði gríðarlega hátt hljóð,“ sagði nemandi sem bjargað var af skipinu. „Nokkrir vinir mínir duttu harkalega og þeim blæddi. Við hoppuðum í vatnið og okkur var bjargað.“

Foreldrar nemendanna hafa safnast saman í menntaskólanum í Ansan og bíða örvæntingarfullir eftir fréttum.

Uppfært kl. 7.11

Yfirvöld í Suður-Kóreu hafa nú staðfest að tæplega 300 sé saknað. Fyrstu upplýsingar gáfu til kynna að mun færri væri saknað. Þar kom fram að 368 manns hefði verið bjargað af ferjunni en nú er talið að 180 hafi verið bjargað. 

AFP
AFP
AFP
AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert