Mafíuforingi gómaður í Frakklandi

Foringi einnar ættkvíslar camorra, mafíunnar í Napólí á Ítalíu, var gómaður í frönsku Miðjarðarhafsborginni Nice í gærkvöldi.

Hér er um að ræða Antonio Lo Russo  sem er aðeins á fertugsaldri en hafði verið á flótta undan réttvísinni um fjögurra ára skeið. Hans bíður að afplána tuttugu ára fangelsisdóm fyrir mafíustarfsemi, aðallega fíkniefnasölu.

Bernard Cazeneuve, innanríkisráðherra Frakklands, segir að Lo Russo hafi verið á forgangslista ítölsku lögreglunnar yfir menn sem hún hefur viljað hafa hendur í hárinu á. Gefin hafði verið út evrópsk handtökutilskipun á hendur honum í febrúar 2011. Hann hefur verið leiðtogi ættkvíslar sem ráðið hefur ríkjum í norðurhluta Napólí.

Að handtöku Antonio Lo Russo stóðu í sameiningu víkingasveit rannsóknarlögreglunnar í Nice og fulltrúar lögreglunnar í Napolí. Þegar látið var til skarar skríða reyndist bróðursonur hans hjá honum, Carlo Lo Russo, sem einnig hefur verið leitað fyrir tilraunir til manndráps. Með þeim var og þriðji Ítalinn sem hefur ekki verið nafngreindur.

Draga átti Antonio Lo Russo og Carlo frænda hans fyrir dómara í dag vegna kröfu um gæsluvarðhald yfir þeim.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert