Viðræður þokast áfram í Venesúela

Viðræður ríkisstjórnar sósíalistans Nicolas Maduro, forseta Venesúela, og stjórnarandstöðunnar í Venesúela þokuðust áfram í dag. Þó er enn ekkert samkomulag í sjónmáli.

Ríkisstjórnin neitaði á samningafundinum í dag að veita 175 föngum, sem hafa verið handteknir í mótmælum stjórnarandstöðunnar í Caracas, höfuðborg landsins, sakaruppgjöf. En fulltrúi samninganefndar ríkisins, Jorge Arreaza, útilokaði þó ekki þann möguleika, eftir því sem fram kemur í frétt AFP um málið.

Vika er síðan deiluaðilarnir settust að samningsborðinu. Markmiðið með friðarviðræðunum er að freista þess að binda enda á þá óöld sem ríkt hefur í landinu undanfarið.

Málaliðar frá Vatíkaninu hafa stýrt viðræðunum.

Að minnsta kosti 39 manns hafa fallið og yfir 600 slasast alvarlega í átökum öryggissveita og herskárra stjórnarsinna við mótmælendur úr röðum stjórnarandstæðinga síðan um miðjan febrúar. Gegn því að fallast á viðræður vilja stjórnarandstæðingar að þeim verði sjónvarpað, pólitískum föngum verði sleppt og vopnaðir hópar stjórnarsinna verði leystir upp.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert