Yngstu foreldrar Bretlands

Foreldrarnir ungu eignuðust dóttur um helgina.
Foreldrarnir ungu eignuðust dóttur um helgina. AFP

Móðirin er tólf ára. Faðirinn þrettán. Líklega eru þau yngstu foreldrar Bretlands. Dóttir þeirra fæddist um helgina en móðirin er enn í grunnskóla.

Í frétt Daily Mail um málið segir að stúlkan hafi verið ellefu ára er hún varð ólétt. Foreldrarnir ganga ekki í sama skóla. Í fréttinni kemur einnig fram að foreldrarnir séu þeir yngstu sem vitað er um í landinu en hún var tólf ára og þriggja mánaða er barnið kom í heiminn. Tressa Middleton var áður yngsta móðir landsins. Hún var fimm mánuðum eldri en hin nýbakaða móðir.

Amma barnsins er aðeins 27 ára og er ein af yngstu ömmum landsins, segir í frétt Daily Mail.

Foreldrarnir kornungu búa í norðurhluta London. Þau hafa verið saman í ár og eru sögð „ástfangin upp fyrir haus“.

Faðir ungu móðurinnar sagði í útvarpsviðtali að hann hefði komist að þungun dótturinnar fyrir mánuði. „Það er ekki annað hægt en að sýna þeim stuðning. Fjölskyldur beggja foreldra munu sýna stuðning. Þetta er átakanlegt en það verður ekki aftur tekið.“

Frétt Daily Mail.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert