115 stúlkna enn saknað

Nígerískt fólk á flótta undan ofbeldi Boko Haram.
Nígerískt fólk á flótta undan ofbeldi Boko Haram. AFP

Skólastjóri í Nígeríu segir ekki rétt að stúlkurnar, sem var rænt fyrr í vikunni, séu nú öruggar. Hann segir að enn séu 115 stúlkur í haldi íslamista og að foreldrar þeirra séu viti sínu fjær af ótta um líf þeirra.

Talsmaður varnarmálaráðuneytis Nígeríu sagði í gær að allar stúlkurnar, fyrir utan átta, væru nú öruggar. Sagðist hann hafa þetta eftir skólastjóra skólans þaðan sem stúlkunum var rænt.

En þessu hafnar skólastjórinn alfarið.

„Frétt ráðuneytisins er röng,“ segir Asabe Kwambura, í samtali við AFP-fréttastofuna.

Hún segir hins vegar rétt að aðeins fjórtán stúlkum hafi tekist að flýja mannræningjana. 

Málið vakti gríðarlega athygli um allan heim. Hópur íslamista kom í skjóli nætur að skólanum og smalaði á annað hundrað stúlkum upp á vörubíla og ók með þær á brott. Að því loknu kveiktu þeir í mörgum húsum í þorpinu þar sem skólinn er. Aðeins nokkrum klukkustundum fyrr höfðu meðlimir Boko Haram-skæruliðasamtakanna, gert eina mannskæðustu árás síðari tíma í Nígeríu í höfuðborginni Abuja. 75 manns féllu í árásinni.

Foreldrar stúlknanna kröfðust þess í gær að bæjaryfirvöld í Chibok, þaðan sem stúlkunum var rænt, fengju að vita hvað hafi orðið um þær, væru þær þegar frjálsar. Sumir foreldrar hófu að leita stúlknanna í óbyggðum.

Boko Haram berst gegn áhrifum vestrænnar menningar og hefur ítrekað ráðist á skóla og drepið námsmenn.

Foreldrarnir líta svo á að fyrst frétt varnarmálaráðuneytisins hafi verið röng sé ekkert verið að gera til að reyna að frelsa stúlkurnar.

„Á meðan við héldum að herinn væri að leita mannræningjanna vorum við vongóð,“ segir eitt foreldrið. Hins vegar hafi fregnir um að þær hafi verið látnar lausar, sem reyndust svo rangar, eytt allri von.

Liðsmenn Boko Haram skutu á öryggisverði við skólann. Þeir kveiktu svo í húsum og rændu stúlkunum. Í árásinni drápu þeir tvo öryggisverði.

Frétt mbl.is: „Þeir námu dóttur mína á brott“

Boko Haram sprengdi sprengju á biðstöð í höfuðborg Nígeríu. 75 …
Boko Haram sprengdi sprengju á biðstöð í höfuðborg Nígeríu. 75 manns létu lífið. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert