„Pabbi, ekki hafa áhyggjur“

Tæplega 300 manns, flestir menntaskólanemendur, á leið í ferðalag er enn saknað eftir að ferja sökk við Suður-Kóreu í fyrrakvöld. 462 voru um borð í ferjunni þegar henni hvolfdi. Að minnsta kosti sex eru látnir en ljóst er að tala látinna mun hækka. Þá eru tugir slasaðir.

Enn er ekki ljóst hvað varð til þess að ferjunni hvolfdi og hún sökk á um 30 metra dýpi. Búist er við því að margir farþegar hafi fests inni í ferjunni.

Ég elska þig líka

„Sendi þetta ef svo fer að ég muni aldrei geta sagt þetta aftur. Mamma, ég elska þig,“ sagði nemandinn Shin Young-Jin í skilaboðum til móður sinnar, en skilaboðin hafa farið víða í fjölmiðlum í landinu.

„Ó, ég elska þig líka sonur,“ svaraði móðir hans, en hún vissi  ekki að sonur hennar berðist fyrir lífi sínu í sjónum þar sem ferjan sökk. Þeirra saga hefur þó góðan endi, því Young-Jin var meðal þeirra 179 sem lifðu af.

Ekki örvænta, gerðu það sem þér er sagt

Annar nemandi, hinn 16 ára gamli Kim Woong-Ki sendi örvæntingarfullt skilaboð til eldri bróður síns í von um hjálp. „Herbergið mitt hallar um 45 gráður. Farsíminn minn virkar ekki mjög vel,“ skrifaði Woong-Ki.

Til að róa bróður sinn, svaraði eldri bróðirinn og sagðist viss um að hjálpin væri á leiðinni. „Ekki örvænta og gerðu bara það sem þér er sagt að gera. Þá verður allt í góðu lagi,“ svaraði hann. Hann fékk ekki fleiri skilaboð frá bróður sínum sem er á meðal þeirra 287 sem saknað er.

Hvatti dóttur sína til að reyna að komast út

„Pabbi, ekki hafa áhyggjur. Ég er í björgunarvesti og ég er með hinum stelpunum. Við erum inni í skipinu, enn á ganginum,“ sagði 18 ára nemandi, stúlka, í skilaboðum til föður síns sem hvatti hana til til að reyna að komast út.

Það var því miður of seint. „Pabbi, ég get ekki. Skipið hallar of mikið. Gangurinn er troðinn af fólki,“ svaraði stúlkan. 

Tæplega 300 manns er saknað.
Tæplega 300 manns er saknað. AFP
Frá vettvangi slyssins í gær.
Frá vettvangi slyssins í gær. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert