Tölva sem Clinton notaði seld fyrir 6,7 milljónir

Bill Clinton sendir tölvupóst útí geim frá heimili vina sinna …
Bill Clinton sendir tölvupóst útí geim frá heimili vina sinna í Arkansas í nóvember árið 1998. AFP

Fartölvan sem Bill Clinton sendi fyrstur Bandaríkjaforseta tölvupóst frá árið 1998, seldist á rúmlega 60 þúsund dollara, eða rúmlega 6,7 milljónir króna á uppboði á netinu. Uppboðshús í Boston sá um uppboðið.

Uppboðshúsið gefur ekki upp nafn kaupandans. Tölvan virkar enn en hana notaði Clinton til að senda geimfaranum John Glenn, sem þá var um borð í geimferjunni Discovery, tölvupóst.

Tölvan var upprunalega í eigu Roberts Darlings, eðlisfræðings sem vann í Hvíta húsinu. Hann lánaði Clinton tölvuna er geimferðastofnun Bandaríkjanna, NASA, tilkynnti forsetanum að geimfarinn vildi skiptast á tölvupóstum við hann.

Glenn fór fyrstur Bandaríkjamanna umhverfis jörðina í geimfari árið 1962. Er hann fékk póstinn frá Clinton var hann að ljúka við níu daga geimferð með Discovery.

„Þetta er vissulega í fyrsta skipti sem ég geri þetta, skrifa forseta frá geimnum, og það gæti verið í fyrsta sinn sem þú færð tölvupóst beint úr geimnum frá geimskipi,“ skrifaði Glenn Clinton.

Clinton vildi endilega fá skilaboð frá geimnum en hann var þá á ferðalagi í Arkansas. Þegar starfsfólk hans gat ekki fundið tölvu til að senda tölvupóstinn bauð Darling honum sína traustu Toshiba-fartölvu til verksins.

„Við erum stolt af þér og allri áhöfninni, og einnig smá öfundsjúk,“ skrifaði Clinton til geimfarans.

Árið 2000 lýsti Clinton því í viðtali að hann notaði aldrei tölvupóst vegna öryggissjónarmiða. Hann viðurkenndi þó að hafa sent Glenn póstinn sem og nokkrum bandarískum sjóliðum sem voru á siglingu um jól.

Áður en Darling seldi tölvuna árið 2000 sá hann til þess að þessi tölvupóst samskipti forsetans og geimfarans varðveittust á harðadisknum í tölvunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert