Franskar leikkonur deila um Hollande

Leikkonan Sophie Marceau
Leikkonan Sophie Marceau Reuters

Fyrrverandi Bond-stúlkan, leikkonan Sophie Marceau, var ómyrk í máli þegar hún tjáði sig um forseta Frakklands, Francois Hollande, í viðtali við tímaritið GQ á dögunum. Harkaleg ummæli hennar vöktu viðbrögð annarrar leikkonu, Catherine Deneuve, sem tók til varnar fyrir forsetann. 

„Maður sem kemur svona fram við konu er ekkert annað en fáviti. Enginn getur krafist þess að hann lifi skírlífi en þegar þú heldur framhjá unnustu þinni í eitt og hálft ár, á sama tíma og þú ert forseti Frakklands, þá ert þú aumingi í þokkabót,“ sagði Marceau í viðtalinu. Marceau er þekkt fyrir að hafa leikið Elektru King í James Bond-myndinni The world is not enough. 

Hin 73 ára gamla leikkona Catherine Deneuve er afar virt í Frakklandi. Alls spannar leiklistarferill hennar um 60 ár. Hún gat ekki orða bundist eftir að hafa heyrt ummæli Marceau. „Að tala með þessum hætti um forseta landsins er fyrir neðan hennar virðingu. Fáviti og aumingi, það mætti halda að hún væri að tjá sig um mann sem hefði haldið framhjá henni sjálfri en ekki æðsta embættismann þjóðarinnar. Þetta kemur mér á óvart og mér finnst óviðeigandi að tjá sig með þessum hætti, og það sama gildir um marga fjölmiðlamenn sem hafa tjáð sig. Þetta segi ég óháð því hvort ég er kjósandi Hollandes eða ekki,“ sagði Deneuve í samtali við blaðið La Nouvelle Republique.

Catherine Deneuve
Catherine Deneuve Mynd/AFP
Francois Hollande
Francois Hollande Mynd/AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert