Heilinn á bak við pyntingar tjáir sig

Mynd/AFP

Sálfræðingurinn James Mitchell, sem oft er kallaður arkítektinn á bakvið pyntingaraðferðir CIA, hefur tekið til varnar fyrir pyntingaraðferðir stofnunarinnar í kjölfar útgáfu skýrslu bandaríska þingsins þar sem komist er að þeirri niðurstöðu að aðferðirnar sem notaðar eru, eru sennilega ólögmætar. 

Höfundar skýrslunnar telja aðferðirnar sem notaðar séu, vera mun grófari en upphaflega var lagt upp með. Á meðal þessara aðferða er drukknun (e. waterboarding), aðferð þar sem fórnarlambið þarf að vera í óþægilegri líkamsstöðu yfir lengri tíma, svefnleysisaðferðir og innilokun í litlum rýmum. 

Mitchell, sem sjálfur er sagður hafa framkvæmt drukknunaraðferðina á manni sem sakaður var um að vera heilinn á bakvið árásirnar á tvíburaturnana árið 2001, Khalid Sheikh Mohammed, segir skýrsluna ekki gefa rétta mynd af aðferðunum. „Allar aðferðirnar voru framkvæmdar í samræmi við lögin á þeim tíma. Ekki er hægt að halda því fram, nú tíu árum síðar, að aðferðirnar hafi verið ólögmætar og fangelsa þá sem voru bara að vinna vinnuna sína.“

Svartur blettur í sögu Bandaríkjanna

Skýrslan í heild sinni spannar 6600 blaðsíður og hefur ekki verið gefin út í heild sinni. 20 blaðsíðna úrdráttur hefur hins vegar verið birtur. Dianne Feinstein, formaður nefndar sem mun fara yfir skýrsluna, segir aðferðirnar sem notaðar voru sýna grófleika sem gangi gegn öllum þeim gildum sem Bandaríkin standa fyrir sem þjóð. „Þessi skýrsla er heimild um svartan blett á sögu okkar sem má aldrei endurtaka sig,“ segir Feinstein. 

Ástandið í Bandaríkjunum bauð upp á þetta

Mitchell segir mikið gert úr neikvæðum áhrifum pyntinga og lítið úr þeim jákvæðu. Hann heldur því staðfastlega fram að aðferðirnar hafi skilað miklum árangri. Hann gefur lítið fyrir gagnrýni fyrrum leyniþjónustumannsins Ali Soufan, sem hefur haldið því fram að með venjulegum yfirheyrsluaðferðum megi ná jafngóðum árangri og með pyntingum. Þá vill Mitchell meina að ástandið sem ríkti í Bandaríkjunum í kjölfar árásanna á tvíburaturnanna hafi ekki verið metið í skýrslunni. Hann segir að á meðal ráðamanna í Bandaríkjunum á þessum tíma hafi verið mikill ótti við frekari árásir og því lagt mikið upp úr því að afla allra upplýsinga sem kostur var á frá föngum sem grunaðir voru um hryðjuverk. 

Sjá frétt The Guardian

Mynd/AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert