Frans páfi vottar samúð sína

Frans páfi er iðinn við að nota ýmis nútímasamskipti á …
Frans páfi er iðinn við að nota ýmis nútímasamskipti á borð við Twitter. AFP

Frans páfi vottaði í morgun aðstandendum þeirra sem létu lífið í ferjuslysinu í Suður-Kóreu í vikunni samúð sína. „Vinsamlegast biðjið með mér fyrir fórnarlömbum slyssins í Kóreu og fjölskyldum þeirra,“ sagði hann meðal annars á Twittersíðu sinni.

Enn er óljóst hvers vegna farþegaferjan Sewol frá S-Kóreu sökk. Um 350 voru um borð og er enn 268 saknað. 179 var hins vegar bjargað og hafa 28 lík fundist. Tveir kafarar komust í farangursrými ferjunnar í gær, en þeir fundu enga sem voru um borð þegar ferjan sökk.

Lee Joon-seok, skipstjóri ferjunnar, var handtekinn í gærkvöldi. Hann bað þá sem lifðu af og ættingja þeirra sem er saknað innilega afsökunar á slysinu. „Mér þykir þetta afar leitt og ég skammast mín. Ég veit ekki hvað ég á að segja,“ sagði hann þegar hann var leiddur burt í handjárnum.

Frans páfi mun fara í fimm daga heimsókn til Suður-Kóreu í ágústmánuði, en hann verður þar með fyrsti páfinn til að heimsækja Asíu frá því að Jóhannes Páll II lagði leið sína til álfunnar á sínum tíma.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert