Verður barnabarnið gyðingur?

Chelsea Clinton og eiginmaður hennar Marc Mezvinsky eiga von á …
Chelsea Clinton og eiginmaður hennar Marc Mezvinsky eiga von á barni. AFP

Hillary og Bill Clinton eru að verða amma og afi, eins og greint var frá í vikunni. Tengdasonur þeirra, Marc Mezvinsky, er gyðingur og nú er mikið um það rætt vestra hvort barnabörnin verði gyðingar eða ekki.

Vefmiðillinn Jewish Press, rit sanntrúaðra gyðinga í New York, birti frétt um þungunina með fyrirsögninni: „Chelsea Clinton ólétt að barni sem ekki er gyðingur“. Chelsea Clinton er í fréttinni kölluð fyrirmyndarbarn Bandaríkjanna þegar kemur að blönduðum hjónaböndum.

Í blaðinu segir að með hjónabandinu sé á skilvirkan hátt verið að höggva á rætur hinnar 3.300 ára gömlu gyðingafjölskyldu Mezvinsky.

Samkvæmt skilgreiningu réttrúaðra gyðinga telst barn ekki vera gyðingur nema móðirin sé fædd gyðingur eða hafi formlega snúist til gyðingdóms. Frjálslyndari gyðingar líta svo á að barn sé gyðingur hljóti það uppeldi í gyðingdómi, jafnvel þótt annað foreldrið sé annarar trúar.

Vefsíða bandarískra gyðingahatara, Stormfront, tók þveröfuga nálgun og birti frétt um þungunina með fyrirsögninni: „Chelsea Clinton gengur með gyðinglegt afsprengi“.

Þriðja nálgunin sást svo hjá vefsíðunni Interfaithfamily.com, sem fjallar um málefni blandaðra fjölskyldna, en þar var tækifærið nýtt til að kynna verðandi foreldrum hvort af sinni trúnni ýmis fræðsluefni um hvernig nálgast skuli uppeldið af jafnræði.

Þegar barnið kemur í heiminn má búast við að margir fylgist með því hvaða leið foreldrarnir velja. Verður því gefið gyðinglegt nafn? Ef það verður drengur, verður hann umskorinn? Mun barnið ganga í hebreskuskóla? 

Síðast en ekki síst er það spurningin hvort og þá hvernig trúarlegt uppeldi barnabarnsins mun hafa áhrif á möguleika Hillary Clintons til forsetakjörs Bandaríkjanna 2016.

Sjá einnig: Chelsea Clinton ólétt

Bill Clinton verður brátt afi í fyrsta sinn.
Bill Clinton verður brátt afi í fyrsta sinn. AFP
Hillary Clinton er að verða amma. Hún er orðuð við …
Hillary Clinton er að verða amma. Hún er orðuð við embætti forseta Bandaríkjanna árið 2016. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert