Þriggja sjerpa enn saknað

Nepölsk björgunarsveit bjargar hér sjerpa úr snjóflóðinu.
Nepölsk björgunarsveit bjargar hér sjerpa úr snjóflóðinu. Mynd/AFP

Leitinni að leiðsögumönnunum þremur sem enn er saknað eftir snjóflóðið á Mount Everest í fyrradag, hefur verið hætt í bili. Þetta staðfesta Nepölsk yfirvöld í samtali við AFP-fréttastofuna.

„Við höfum engar upplýsingar um staðsetningu líkanna og því er erfitt að finna þau í snjónum,“ segir fulltrúi stjórnvalda í samtali við AFP. 

Wangdi Sherpa er einn þeirra sem lifði snjóflóðið af. Hann var staddur ásamt öðrum sjerpum uppi í fjallinu þegar snjóflóðið féll. „Stór íshella kom allt í einu niður fjallið. Ég trúði því ekki að ég myndi lifa af,“ sagði Wangdi sem hefur sjálfur komist á topp Mount Everest í þrígang. Hann var ásamt öðrum aðstoðarmanni bundinn við línu og tókst þeim báðum að fela sig á bakvið stóra íshellu í fjallinu á meðan snjóflóðið dundi á þeim. 

„Við lifðum af vegna þess að við vorum fremstu menn í línunni. Tólf þeirra sem á eftir okkur komu lifðu allir af, en þeir sem voru á eftir þeim í röðinni létu allir lífið.“ 

Óvíst er hvort þeir leiðangrar sem eru á fjallinu muni halda á toppinn. Lapka Sherpa hefur tvisvar gengið á topp fjallsins. Hann segir öryggið þrátt fyrir slysin í vikunni, miklu betra en það var fyrir örfáum árum. „Öryggið hefur batnað um 80% á undanförnum tíu árum vegna þess að sjerparnir eru betur þjálfaðir,“ segir Lapka. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert