Versta flugslys í Finnlandi í mörg ár

Átta létu lífið í flugslysi í nágrenni við Jämijärvi-flugvöllinn í suðvesturhluta Finnlands rétt fyrir klukkan þrjú að staðartíma í dag. Þetta staðfesti lögreglan á blaðamannafundi nú í kvöld. Finnskir fjölmiðlar segja að flugslysið sé eitt það versta þar í landi í fleiri ár.

Enn er þó ekki vitað hver tildrög slyssins voru. Ljóst er hins vegar að ellefu manns voru um borð í vélinni, tíu fallhlífastökkvarar og einn flugmaður. Þrír björguðust, þar á meðal flugmaðurinn, en þeim tókst að stökkva út í tæka tíð með fallhlífarnar sínar.

Flugvöllurinn er um tvö hundruð kílómetra norður af Helsinki, höfuðborg Finnlands, en þar má finna eina helstu miðstöð fallhlífastökkvara í landinu, að því er segir í frétt á vef finnska ríkisútvarpsins Yle.

Mikill eldur blossaði upp úr vélinni þegar hún brotlenti en björgunarsveitarmenn komu fljótlega á vettvang og réðu niðurlögum hans.

Á blaðamannafundinum í kvöld sagði lögreglan að málið væri nú til rannsóknar og að þess vegna væri lítið hægt að segja að svo stöddu. Reiknað er með því að rannsóknin muni taka langan tíma.

Þremenningarnar sem lifðu af voru umsvifalaust fluttir á sjúkrahús en meiðsli þeirra eru ekki talin vera alvarleg. Óvíst er hvenær þeir munu gefa lögreglunni vitnaskýrslu, en framburður þeirra mun líklegast skipta miklu máli.

Frétt mbl.is: Þrír létust í flugslysi í Finnlandi

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert