Forsendurnar að bresta

AFP

Forsendur samkomulagsins sem Rússar, Úkraínumenn, Bandaríkjamenn og Evrópusambandið skrifuðu undir í Genf á fimmtudaginn síðasta virðast vera að bresta. Aðskilnaðarsinnar hliðhollir Rússum í nokkrum borgum í austurhluta Úkraínu neita enn að yfirgefa þær opinberu byggingar sem þeir hafa hertekið á undanförnum dögum.

Samkomulagið fólst einmitt í því að þeir myndu taka föggur sínar saman og yfirgefa byggingarnar, eftir því sem fram kemur í frétt Reuters um málið.

Stjórnvöld í bæði Bandaríkjunum og Evrópu hafa haldið því fram að Rússar beri ábyrgð á hertökum aðskilnaðarsinna í austurhluta Úkraínu. Þau hafa jafnframt hótað því að beita frekari efnhagslegum refsiaðgerðum gegn Rússum láti þeir ekki af aðgerðum sínum.

Eins og mbl.is greindi frá fyrr í dag kom Joe Biden, varaforseti Bandaríkjanna, til Úkraínu í morgun en hann mun í dag og á morgun ræða við ýmsa embættis- og stjórnmálamenn í Kænugarði um þá stöðu sem upp er komin í landinu.

Sergi Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, sakaði fyrr í dag stjórnvöld í Kænugarði um brjóta samkomulagið fræga. Hann sagði að Úkraínumenn hefðu ekki staðið við loforð sitt um að veita þeim aðskilnaðarsinnum, sem hafa lagt undir sig opinberar byggingar í austurhluta Úkraínu, sakaruppgjöf. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert