Fyrrverandi forseti Senegals snýr aftur

Karim Wade, sonur Abdoulaye Wade, fyrrverandi forseta Senegals.
Karim Wade, sonur Abdoulaye Wade, fyrrverandi forseta Senegals. AFP

Abdoulaye Wade, fyrrverandi forseti Senegals, snýr aftur til heimalands síns á miðvikudaginn eftir að hafa dvalið í Frakklandi í tvö ár. Hann flúði Senegal og settist að í frönskum bæ eftir að hafa tapað forsetakosningunum árið 2012.

Wade var forseti Senegals á árunum 2000 til 2012 en laut í lægra haldi fyrir Macky Sall, núverandi forseta landsins, í kosningunum í marsmánuði árið 2012. 

Sonur hans Karim Wade hefur orðið uppvís að spillingu en réttarhöld munu hefjast yfir honum í næsta mánuði. Talið er faðir hans vilji sýna honum stuðning í verki og þess vegna hafi hann ákveðið að flytja aftur til Dakars, höfuðborgar Senegals.

Abdoulaye segir að rannsókn lögreglunnar á Karim sé af pólitískum rótum runnin. „Ef sonur minn Karim endar í fangelsi, þá er það vegna þess að Macky Sall leit á hann sem eina andstæðinginn sem gæti sigrað hann,“ sagði Abdoulaye í samtali við franska dagblaðið Le Monde fyrr í vikunni.

Líklegt þykir að Karim bjóði sig fram gegn Sall í forsetakosningunum árið 2017, að því er segir í frétt AFP.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert