Vill fara sænsku leiðina í Bretlandi

Talið er að um 30 þúsund konur séu í vændi …
Talið er að um 30 þúsund konur séu í vændi í Bretlandi. Caroline Spelman, fyrrum umhverfisráðherra íhaldsflokksins, vill taka upp sænsku leiðina þar í landi. AFP

Caroline Spelman, fyrrum umhverfisráðherra íhaldsflokksins í Bretlandi, hefur lagt til að farin verði svokölluð sænsk leið þegar kemur að lögum um vændiskaup. Sú leið gengur út á að vændiskaup verði gerð ólögleg, en ekki sala vændis. Þetta kerfi er meðal annars við lýði á Íslandi, Svíþjóð og Noregi. Í Bretlandi eru lög sem banna rekstur vændishúsa og götuvændi, en vændi er löglegt bakvið læstar dyr, svo framarlega sem þriðji aðili græði ekki á athæfinu.

Í samtali við breska blaðið Guardian segir Spelman það nauðsynlegt að fleiri karlkyns stjórnmálamenn taki þátt í umræðum um þetta málefni, en skiptar skoðanir eru um málið. Spelman segist sjálf telja sænsku leiðina þá réttu, en bent hefur verið á að með því að gera vændiskaup ólögleg þá færist þetta athæfi undir yfirborðið og að erfiðara verði að fylgjast með því.

Í dag er áætlað að um 30 þúsund konur séu í vændi í Bretlandi og í Wales, en 17 þúsund af þeim eru innflytjendur. Samkvæmt tölum frá lögreglunni á Bretlandseyjum er áætlað að um 2.600 konur sem séu í vændi þar í landi séu fórnarlömb mansals.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert