10 mannskæðustu klifurslysin

Leníntindur í Pamírfjöllum í Kyrgístan.
Leníntindur í Pamírfjöllum í Kyrgístan. wikipedia

Fjallaklifur er iðja sem skilur eftir sig vellíðan og ánægju þegar vel tekst til. Það getur líka verið með hættulegustu viðfangsefnum mannsins. Ógnirnar eru grjóthrun, snjóflóð, óvæntar og snöggar breytingar á veðri, hrap og veikindi.

En ævintýraþráin og ást á náttúrunni hefur verið lífseig og þrátt fyrir allt hafa fjöllin togað til sín klifrara frá ómunatíð. Enska fjallagarpnum George Mallory þótti einkennilegt er hann var spurður hvers vegna hann vildi klífa Everest. „Vegna þess að fjallið er á sínum stað.“

Mallory og félagi hans týndust árið 1924 er þeir freistuðu þess fyrstir manna að klífa Everest. Áttu þeir örstutt eftir er síðast sást til þeirra. Margir hafa týnt lífi á fjallinu síðan og önnur fjöll hafa einnig reynst mannskæð eins og fram kemur hér á eftir.

40 farast á Leníntindi

Eitt versta fjallaslys sögunnar átti sér stað 17. júlí 1990 á Leníntindinum í Pamírfjöllum í Kirgístan, skammt frá kínversku landamærunum. Þar fórust að minnsta kosti 40 manns af 140 sem tóku þátt í alþjóðlegum leiðangri á tindinn, sem er 7.134 metra hár. Reisti hann búðir í 6.000 metra hæð, á svæði sem gengur undir nafninu Steikarpannan. Þar skildi áð fyrir síðasta áfanga klifursins. En þá riðu ósköpin yfir, flóð æddi niður og tók með sér 40 manns frá fimm löndum sem allir biðu bana. Þar á meðal voru 27 Sovétmenn, hinir voru frá Tékkóslóvakíu, Ísrael, Sviss og Spáni.

Níunda hæsta fjall heims, hið 8.126 metra Nanga Parbat í Pakistan, hefur gengið manna á meðal undir nafninu „Drápsfjall“. Maður að nafni Hermann Buhl sigraðist á því fyrstur allra hinn 3. júlí 1953. Var hann einn síns liðs og brúkaði ekki súrefnistæki. Fjallið hefur verið mannskætt og þykir afar erfitt og hættulegt viðureignar. Árið 1937 stóð stjórn Hitlers fyrir þýskum leiðangri á Nanga Parbat. Ætlunin var að reyna við sömu leið og leiðangur Willy Merkl fór 1934 en í þeim leiðangri fórust níu menn, þar á meðal Merkl. För nýja leiðangursins varð tafsöm vegna mikillar snjókomu. Um 14. júní var svo til allur hópurinn í fimmtu búðum, undir Raikottindi. Reið þá snjóflóð yfir og tók með sér sjö Þjóðverja og níu Sherpa. Er það enn meðal mannskæðustu slysa í yfir 8.000 metra hæð.

8 fórust við tind Everest

Eitt mesta snjóflóðaslys á Everestfjalli átti sér stað 11. maí 1996. Biðu átta manns bana er tvö lið, samtals 33 menn, reyndu að komast á tindinn samdægurs. Lagði hópurinn af stað undir miðnætti 10. maí en tafðist á leiðinni. Margir þeirra höfðu ekki náð á tindinn klukkan tvö daginn eftir og tími því að renna út til að ná af öryggi aftur niður í fjórðu búðir fyrir myrkur. Klukkan 14:30 voru klifurmenn og leiðsögumenn byrjaðir að ganga niður til baka en aðrir voru enn að týnast upp. Klukkan 15 breyttist veðrið til hins verra og nokkrir komust ekki upp fyrr en 15:45 eða síðar. Var hið versnandi veður þá tekið að valda þeim örðugleikum sem voru á niðurleið. Él takmörkuðu útsýni þeirra og grófu kaðla sem festir höfðu verið í bergið, og færði einnig leiðina niður í fjórðu búðir í kaf í snjó. Margir klifraranna týndu áttum og reyndu að dveljast í hnapp og halda á sér hita. Þegar loks létti til í birtingu á nýjum degi sást niður í búðirnar og eftirlegumenn komust margir niður. Þrír menn biðu þá bana þennan morgun, króknuðu úr kulda og tveir hröpuðu skammt neðan tindsins. Af þessum fimm voru þrír leiðsögumenn. Þrír menn til viðbótar – og því samtals átta – fórust í leiðangri upp norðurhlíðar Everest frá Indlandi. Af tindinum létu þeir leiðangur sinn vita í talstöð að þeir hefðu náð upp. Aldrei heyrðist frá þeim eftir það og aldrei birtust þeir aftur í næstu búðum fyrir neðan tind Everest.

11 fórust á „Grimmafjalli“

K2, sem gengur einnig undir heitinu „Grimmafjall“, er næst hæsta fjall jarðarinnar og þykir það erfiðasta að klífa. Fyrir hverja fjóra sem náð hafa upp a tindinn hefur einn farist á leiðinni. Fyrstir til að sigrast á K2 voru tveir Ítalir, Lino Lacedelli og Achille Compagnoni, en á tindinum stóðu þeir 31. júlí 1954. Mannskæðasta slys þar átti sér stað 1. ágúst 2008 er 11 fjallgöngumenn úr alþjóðlegum leiðangri fórust en þrír til viðbótar slösuðust alvarlega. Hópurinn sem gott veður freistaði til að leggja í síðasta spölinn taldi 25 manns. Einn maður missti fótanna eftir að hann hafði losað sig frá reipi sem fest hafði verið í fjallið til uppferðar. Hrapaði hann um 100 metra á svo nefndum Flöskuhálsi og beið bana. Við tilraun til að ná líkinu féll einnig burðarmaður og beið bana.

Alls komst 18 á tindinn þennan dag og hafði hópur þeirra nánast komist fyrir Flöskuhálsinn er íshella hrundi og auk þess að taka með sér mann tætti hún í sundur alla klifurkaðla sem lágu upp á topp. Var hópurinn því meira og minna strandaglópa á dauðasvæði við fjallstindinn. Sumir freistuðu að ganga niður í myrkri án þess að njóta kaðla en aðrir ákváðu að leggjast fyrir bíða til morguns. Nokkrir náðu niður en einn hrapaði er hann var að yfirstíga Flöskuhálsinn. Áfram héldu ísskarir að hrapa og kostaði það líf sjö fjallgöngumanna og sherpa til viðbótar. Voru mennirnir frá Kóreu, Pakistan, Nepal, Írlandi, Noregi, Frakklandi og Serbíu.

Flóð hreif með sér átta á Mont Blanc

Mont Blanc er hæsta fjall Alpanna og hæsta fjall Vestur-Evrópu, 4.810 metrar. Það var fyrst klifið svo vitað sé hinn 8. ágúst 1786, af Frökkunum Jacques Balmat og Michel Paccard. Þann 24. ágúst 2008 lögðu 47 menn til uppgöngu eftir norðvesturhliðinni. Voru þeir í um 3.600 metra hæð þegar íshella brotnaði og féll og kom af stað 200 metra breiðu snjóflóði. Hreif það með sér 15 fjallgöngumenn. Sjö þeirra tókst að slíta sig frá því en átta sópuðustu með flóðinu eittþúsund metra niður eftir hlíðum Mont Blanc. Fjórir þeirra voru þýskir, þrír svissneskir og einn Austurríkismaður. Hinir heppnu sem flóðið hreif ekki með sér alla leið hlutu flestir beinbrot.

Eiger-tindur í Bernölpum í Sviss hefur heimt margt manslífið, eða að minnsta kosti 64 fjallgöngumanna frá árinu 1935. Af þeim sökum hefur hann verið uppnefndur „Mordwand“ eða Morðveggurinn bókstaflega. Þessi 3.970 metra tindur var fyrst sigraður 11. ágúst 1858. Þar voru á ferð svissnesku leiðsögumennirnir Christian Almer og Peter Bohren ásamt Íranum Charles Barrington.

Innlyksa í klettabelti á Eigertindi

Í júlí 1936 freistuðu Svisslendingarnir Andreas Hinterstoisser og Toni Kurz, og Austurríkismennirnir Willy Angerer og Edi Rainer uppgöngu eftir norðurhlíðinni. Fyrri tilraun nokkrum dögum áður þurftu þeir að hætta vegna veðurs. Hrundi grjót úr berginu yfir þá er sólin hækkaði á lofti, með þeim afleiðingum að Angerer slasaðist alvarlega. Félagarnir ákváðu að hætta við og snúa aftur niður en urðu strandaglópa er þeim tókst ekki að komast til baka yfir ísilagað og einkar erfitt klettabelti, sem kennt var við Hinterstoisser. Veðrið versnaði næstu tvo dagana og snjóflóð hrepptu þrjá af félögunum. Einungis Kurz lifði af með því að hanga og halda sér fast í reipi.

Þrír svissneskir leiðsögumenn hófu afar hættulegan björgunarleiðangur. Tókst þeim að koma kaðli til Kurz til að síga niður til þeirra en tilraunir hans til að komast niður mistókust og hann örmagnaðist. Með því að standa uppi á öxlum annars björgunarmanns reyndi einn þeirra að ná til Kurz. Lengra náði hann ekki en að snerta mannbrodda hans. Kurz var orðinn algjörlega máttvana og sagðist ekki geta meir og dó á næstu mínútum.

Hörmulegasta fjallaslys Kanada

Þann 11. júlí árið 1955 varð eitt hörmulegasta fjallaslys í Kanada, á Templefjalli í Klettafjöllum, sem nær 3.400 metra yfir sjó. Sjö afar vanbúnir bandarískir táningar hröpuðu til bana. Voru þeir á leið upp eftir ferðamannaslóða upp suðvesturhrygg fjallsins ásamt fjórum öðrum. Hópurinn var ekki klæddur til fjallaferða og aðeins ein ísöxi var meðferðis. Sumir voru í hafnarboltaskóm til að hafa betri viðspyrnu og saman var hópurinn bundinn við kaðal.

Um klukkan 16 var hópurinn í 2.750 metra hæð og settist á rökstóla um framhaldið þar sem sumarhitinn hafi hrundið snjóflóðum af stað allt í kring. Ákváðu drengirnir að snúa við. Ekki liðu nema nokkrar mínútur er stórt snjóflóð féll og æddi til móts við hópinn. Einn drengjanna hjó ísexinni í hlíðina og hélt fast í hana. Snögglega strekktist á kaðlinum en hann slitnaði áður en pilturinn missti takið á öxinni. Flóðið tók með sér 10 drengi á aldrinum 12 til 16 ára og áður en dagurinn var úti voru sjö þeirra látnir.

9 urðu úti á Hoodfjalli í Oregon

Fjallið Dhaulagiri í Nepal er það sjöunda hæsta í heimi, 8.167 metrar. Að morgni 28. apríl 1969 lögðu sex Bandaríkjamenn og tveir sherpar af stað með birgðir upp í efri búðir. Í 5.200 metra hæð urðu þeir að gera brú úr spýtum yfir gljúfur til að komast áfram. Er þeir voru í miðjum klíðum við brúargerðina féll gríðarlegt snjóflóð úr hlíðum fyrir ofan hópinn. Hreppti það alla nema einn með sér svo þeir fórust. Kraftaverk þykir að einn fjallgöngumannanna skyldi sleppa lifandi og ómeiddur.  

Hood-fjall í Oregonríki er 3.426 metra hátt og var fyrst klifið 11. júlí 1857. Þar átti sér stað eitt versta klifurslys Bandaríkjanna er sjö táningar og tveir kennarar úr unglingaskóla í Portland urðu úti. Nítján manna hópur lagði af stað klukkan þrjú að morgni þann 12. maí 1986 en sex þeirra sneru við á leiðinni vegna veikinda eða þreytu. Hinir héldu áfram og voru komnir í yfir 3.000 metra hæð klukkan 13 en urðu þá að snúa við vegna versnandi veðurs. Neyddust þeir til að halda kyrru fyrir á fjallinu um nóttina vegna veðurs og grófu helli í snævi þakta fjallshlíðina til að hafa skjól fyrir veðri og vindum. Daginn eftir héldu tveir til byggða til að leita eftir hjálp. Þann 14. maí fann leitarflokkur þrjá úr hópnum sem orðið höfðu úti, frosið í hel. Þeir átta sem enn voru á fjallinu fundust daginn eftir, 15. maí, í snjóhúsinu en aðeins tveir þeirra lifðu vosbúðina af.

Afar mannskætt slys varð á fjallinu Manaslu í Nepal 10. apríl 1972. Telst það áttunda hæsta fjall veraldar, tindur þess er 8.156 metrar yfir sjávarmáli. Japanskur leiðangur varð fyrstur til að ná á tind „Fjalls andans“ eins og það er kallað, hinn 9. maí 1956. Í leiðangrinum afdrifaríka 1972 freistuðu Suður-Kóreskir fjallgöngumenn að komast upp norðausturhlíðar fjallsins. Endaði það með miklum hörmungum því snjóflóð sópaði byrt efstu búðir, í 6.500 metra hæð, með þeim afleiðingum að 15 menn fórust, þar af 10 sherpar.

Nanga Parbat í Pakistan er níunda hæsta fjall heims.
Nanga Parbat í Pakistan er níunda hæsta fjall heims. wikipedia
Ógnar kraftur býr í snjóflóðum en hér er flóðið sem …
Ógnar kraftur býr í snjóflóðum en hér er flóðið sem heimti a.m.k. 13 mannslíf á Everest á föstudaginn langa. mbl.is/afp
K2 er næsthæsta fjall jarðar og hér trónir það yfir …
K2 er næsthæsta fjall jarðar og hér trónir það yfir umhverfinu.
Margur hefur ekki snúið til baka úr leiðangri á Mont …
Margur hefur ekki snúið til baka úr leiðangri á Mont Blanc. wikipedia
Eigerfjallið trónir yfir Kleine Scheidegg.
Eigerfjallið trónir yfir Kleine Scheidegg. wikipedia
Norðurhlið Mount Temple, horft frá Fairview-fjalli.
Norðurhlið Mount Temple, horft frá Fairview-fjalli. wikipedia
Dhaulagiri er torsóttur tindur.
Dhaulagiri er torsóttur tindur.
Sjö skólapiltar og tveir kennarar urðu úti á Mount Hood …
Sjö skólapiltar og tveir kennarar urðu úti á Mount Hood í Oregon 1986.
Sólin rís á Manaslu í Nepal, áttunda hæsta fjalli heims.
Sólin rís á Manaslu í Nepal, áttunda hæsta fjalli heims. wikipedia
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert