Ásakanir í garð Pistorius uppspuni

Pistorius í réttarsalnum.
Pistorius í réttarsalnum. MARCO LONGARI

Fjölskylda suður-afríska spretthlauparans Oscars Pistorius segir að ásakanir um að hann hafi fengið kennslustund í leiklist áður en réttarhöldin yfir honum hófust eigi sér enga stoð. Þau séu ekkert annað en rógburður.

Í tilkynningu sem Anneliese Burgess, fjölmiðlafulltrúi fjölskyldunnar, sendi frá sér segir að ásakanirnar séu „uppspuni“ og til þess fallnar að kasta rýrð á mannorð Pistorius.

Pistorius er ákærður fyrir að hafa myrt kærustu sína, Reevu Steenkamp, að yfirlögðu ráði á heimili sínu í Pretoríu í febrúarmánuði í fyrra.

Hann hefur haldið fram sakleysi sínu og segist hafa talið Steenkamp vera innbrotsþjóf.

Suður-afríski blaðamaðurinn Jani Allan skrifaði opið bréf þar sem hún heldur því fram að Pistorius hafi fengið kennslu í leiklist hjá einum af nánum vinum hennar áður en réttarhöldin hófust fyrr á árinu. 

Hún segir að Pistorius hafi brugðist trausti aðdáenda sinna og svikið fjölskyldu sína og vini, eftir því sem fram kemur í frétt AFP.

Réttarhöldunum yfir honum var frestað yfir páskana en þau hefjast á nýjan leik þann 5. maí næstkomandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert