Skoða aðra mögulega lendingarstaði

Hvar er hún?
Hvar er hún? AFP

Þeir sem koma að rannsókn á hvarfi malasísku flugvélarinnar skoða nú enn á ný hvort hún hafi mögulega lent annars staðar en í suðurhluta Indlandshafsins.

Þetta hefur malasíska dagblaðið New Straits Times eftir heimildarmanni sem tengist rannsókninni. Rannsóknarteymið er að íhuga að fara aftur á byrjunarreit og skoða alla möguleika stöðunnar upp á nýtt.

Sex vikur eru liðnar frá því að vélin hvarf og ekkert hefur spurst til hennar síðan. Umfangsmikil leit hefur staðið yfir í suðurhluta Indlandshafs síðustu vikur eftir að greining á gervitunglagögnum sýndi að líklega hefði vélinni verið flogið í þá átt. Þá hefur ýmislegt brak fundist í sjónum og heyrst hafa merki sem hugsanlega eru frá flugrita. En allt hefur komið fyrir ekki - vélin finnst ekki. Nú er brjálað veður á leitarsvæðinu og hefur frekari leit verið frestað.

Rannsóknarteymið sem um ræðir hefur komið að rannsókn hvarfsins frá upphafi. Það er staðsett í Kuala Lumpur. Eitt af því sem teymið ætlar nú að skoða er enn á ný hvort að verið getið að vélin hafi endað för sína annars staðar en í Indlandshafi.

„Möguleikinn á því að vélin hafi lent annars staðar er ekki óhugsandi, því við höfum ekki fundið neitt brak sem tengist vélinni,“ hefur dagblaðið eftir heimildarmanni sínum.

„En sá möguleiki að eitthvað land feli vélina, á meðan yfir tuttugu þjóðir taka þátt í leitinni, virðist fjarstæðukennd.“

Heimildarmaður segir að ekki sé mögulegt að horfa eingöngu á einn leitarstað lengi í einu.  Hann segir að enn bindi rannsóknarteymið vonir við að litli kafbáturinn, Bluefin-21, finni flakið á botni Indlandshafsins.

Enn hefur rannsóknarteymið ekki fengið öll þau gögn sem það hefur beðið um. Því vilja malasísk stjórnvöld biðja stjórnvöld þeirra þjóða, sem mögulega gætu varpað einhverju frekara ljósi á hvarf vélarinnar, að gera það. 

Frétt New Straits Times

Herskip á leitarsvæðinu í Indlandshafi.
Herskip á leitarsvæðinu í Indlandshafi. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert