Leiðtoga tatara meinað að koma til Krím

Mustafa Dzhemilev, leiðtogi tatara og úkraínskur þingmaður.
Mustafa Dzhemilev, leiðtogi tatara og úkraínskur þingmaður. AFP

Leiðtoga tatara á Krímskaga, Mustafa Dzhemilev, hefur verið meinað að snúa aftur til Krímskaga eftir stutt ferðlag sitt á meginland Úkraínu. Stjórnvöld í Rússlandi hafa bannað honum að koma í héraðið næstu fimm árin.

Þetta kom fram í tilkynningu frá töturum, en AFP greinir frá málinu.

Íbúar Krímar eru um 2,3 milljónir og skiptast í þrjá meginhópa: Úkraínumenn í norðurhlutanum, Rússa í suðurhlutanum og á milli þeirra eru tatarar sem tala tyrkneskt mál og eru múslímar. Samkvæmt manntali frá árinu 2001 eru Rússar um 58% íbúa Krímskaga, 24% Úkraínumenn og 12% eru tatarar.

Talið er að tatarar séu nú yfir tíu milljónir og flestir þeirra búa í Rússlandi, Úkraínu, Póllandi, Búlgaríu og Kína. Í Rússlandi búa um 5,5 milljónir tatara, þar af tvær milljónir í Tatarstan.

Tatarar eru mjög andsnúnir sameiningu við Rússland. Þeir minnast þess þegar Jósef Stalín flutti marga þeirra nauðungarflutningum í austurhéruð Sovétríkjanna í seinni heimsstyrjöldinni.

Þeir sniðgengu kosningarnar um innlimun Krímskagans í febrúarmánuði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert