Mugabe tók á sig „mikla launalækkun“

Robert Mugabe, forseti Simbabve.
Robert Mugabe, forseti Simbabve. AFP

Hinn umdeildi forseti Simbabve, Robert Mugabe, segist hafa tekið á sig „mikla launalækkun“ vegna „erfiðra tíma“ en í viðtali við breska ríkisútvarpið segist hann nú fá fjögur þúsund Bandaríkjadali, sem jafngildir 450 þúsundum króna, á mánuði í laun.

Meðallaunin í landinu eru 300 Bandaríkjadalir, eða 33.700 krónur, á mánuði. Atvinnuleysi mælist þar áttatíu prósent og er talið að langflestir íbúar landsins glími við mikla fátækt og örbirgð.

Ekki er mjög langt síðan forsetinn lét byggja lúxusetur í útjaðri höfuðborgar landsins, Harare, sem metið var á yfir tíu milljónir Bandaríkjadala.

Mugabe hefur stýrt landinu frá því árið 1980 en undir hans stjórn hefur ársverðbólgan til að mynda náð 231 milljón prósenta. Það var þegar verst lét. Þá var ráðamönnum nóg boðið þannig að þeir hættu að birta upplýsingar um ástandið í efnahagslífinu.

Frá árinu 2009 hefur þó efnahagurinn stefnt í rétta átt, að því er segir í frétt AFP.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert