Segjast hafa samið við sjerpana

AFP

Stjórnvöld í Nepal samþykktu í dag að greiða bætur til fjölskyldna leiðsögumannanna sem létu lífið í snjóflóðinu í Everest á föstudag í samræmi við kröfur sjerpa. Haft er eftir Ang Tshering Sherpa, formanni Samtaka fjallaleiðsögumanna í Nepal, að þó nokkrir sjerpar hafi haft á orði að hætta störfum það sem eftir lifði fjallgönguvertíðinni hefðu þeir núna samþykkt að hefja aftur störf á laugardaginn.

Þetta kemur fram í frétt Reuters. Hins vegar segir einnig að fréttir séu misvísandi og er vitnað í bandarískan fjallgöngumann í grunnbúðunum við Everest sem hafi sagt að sjerparnir væru að pakka saman föggum sínum og á leið niður fjallið. Þá segir að hætt hafi verið við nokkra leiðangra. Þar á meðal hefur Vilborg Arna Gissurardóttir sagt að hún sé hætt við að reyna að komast á tind Everest að þessu sinni nema eitthvað breytist á meðan hún er á svæðinu. 

Haft er eftir stjórnvöldum að lágmarkstrygging sjerpa yrði hækkuð um 50% í um 15 þúsund dollara og að settur yrði á fót sérstakur sjóður til þess að tryggja velferð fjölskyldna sem misstu fyrirvinnu sína. Meðal annars til þess að borga fyrir menntun barna þeirra. Þá yrði gripið til ráðstafana til þess að slys eins og það sem átti sér stað á föstudaginn endurtæki sig ekki en það kostaði 16 leiðsögumenn lífið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert