Þúsund innflytjendur á tveimur sólarhringum

Frá björgun flóttamanna við Ítalíu fyrr í apríl.
Frá björgun flóttamanna við Ítalíu fyrr í apríl. AFP

Ítalir hafa bjargað yfir þúsund innflytjendum af hafi síðustu tvo sólarhringa. Stjórnmálamenn gagnrýna sumir hverjir þann mikla kostnað sem hlýst af slíkum björgunum.

Næstum því upp á hvern dag er flóttafólki, m.a. frá Afríku og Sýrlandi, bjargað úr sjónum við strendur Ítalíu. Fólkið er ekki allt í mikilli hættu þegar sjóherinn sækir það, heldur er um að ræða aðgerð sem hófst í október og miðar að því að koma í veg fyrir stórslys í Miðjarðarhafinu. Aðgerðin kostar um níu milljónir evra í hverjum mánuði, samkvæmt ítölskum fjölmiðlum.

„Það verður að stöðva þessa brjálæðislegu og rándýru aðgerð strax,“ segir Maurizio Gasparri, sem er í hægri flokknum Forza. Hann segir að það sem hafist upp úr krafsinu sé hafsjór ólöglegra innflytjenda. 

Ríkisstjórn Ítalíu hefur varað við því að straumur flóttafólks eigi eftir að aukast. Í apríl er talið að um 600 þúsund flóttamenn frá Afríku og Mið-Austurlöndum ætli sér að komast til Evrópu frá ströndum Líbíu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert