Undirbúa kjarnorkusprengingu

Kim Jong-Un, leiðtogi Norður-Kóreu.
Kim Jong-Un, leiðtogi Norður-Kóreu. AFP

Ráðgjafar suður-kóresku ríkisstjórnarinnar telja líklegt að Norður-Kóreumenn séu nú að undirbúa fjórðu kjarnorkusprenginga sína neðanjarðar. Þeir segja að gervihnattamyndir af helsta kjarnorkutilraunasvæðinu í Norður-Kóreu bendi eindregið til þess.

Þeir hafa áður sprengt kjarnorkusprengjur neðanjarðar árin 2006, 2009 og 2013, að því er segir í frétt AFP um málið.

„Við teljum það vera möguleika að þeir sprengi kjarnorkusprengju óvænt eða að þeir bara þykist sprengja kjarnorkusprengju,“ sagði Kim Min-Seok, talsmaður suður-kóreska varnarmálaráðuneytisins.

Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, mun heimsækja Suður-Kóreu á föstudaginn en þeir sérfræðingar sem AFP ræddi við telja líklegt að í tilefni þess vilji stjórnvöld í Norður-Kóreu sýna mátt sinn og megin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert