Vísa ásökunum um fjöldamorð á bug

Súdanskur drengur.
Súdanskur drengur. Reuters

Uppreisnarmenn vísa ásökunum um fjöldamorð á almennum borgurum í bænum Bentiou í Suður-Súdan á bug en talsmenn Sameinuðu þjóðanna segja þá hafa tekið hundruð manna af lífi í þjóðernishreinsunum.

Uppreisnarmennirnir segja ásakanirnar vera áróður stjórnvalda sem ásamt bandamönnum sínum beri ábyrgð á voðaverkunum. Talsmaður þeirra segir stjórnarherinn hafa framið glæpina á flótta frá bænum.

Herinn í Suður-Súdan hefur undanfarið barist gegn uppreisnarhópum sem hliðhollir eru fyrrverandi varaforseta landsins, Riek Machar. Uppreisnarhóparnir hafa í þessum mánuði einbeitt sér að því að ná tökum á þorpum og svæðum þar sem olíu er að finna.

Í yfirlýsingu frá Sameinuðu þjóðunum sagði að í síðustu viku hafi uppreisnarmenn gert árásir á flesta þá staði þar sem fólk hafði leitað skjóls. Í moskum, kirkjum og spítölum var fólki skipt upp í flokka eftir þjóðernum og því annaðhvort hlíft eða tekið af lífi, allt eftir því hvort uppreisnarmenn teldu þau vera andstæðinga sína eða ekki.

Frétt mbl.is: Hvöttu til nauðgana og drápa

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert