Yfirgefa ekki herteknar byggingar

Fátt bendir til þess að aðskilnaðarsinnar hliðhollir Rússum ætli að yfirgefa opinberar byggingar sem þeir hafa hertekið í borginni Slovíansk í austurhluta Úkraínu, eins og samkomulagið í Genf kveður á um.

Mark Etherington, fulltrúi Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu, fundaði með Viacheslav Ponomaryov, leiðtoga aðskilnaðarsinna, í gær. 

Á fimmtudaginn í síðustu viku skrifuðu Úkraínumenn, Rússar, Bandaríkjamenn og Evrópusambandið undir samkomulag í Genf í Sviss sem fólst meðal annars í því að aðskilnaðarsinnar í borgum í austurhluta Úkraínu myndu yfirgefa þær opinberu byggingar sem þeir hafa lagt undir sig.

Etherington greindi hins vegar fjölmiðlum frá því eftir fundinn að fátt benti til þess að þeir ætluðu að standa við þennan hluta samkomulagsins.

Aðskilnaðarsinnar hafa bent á að þeir hafi ekki átt neinn fulltrúa á samningafundinum í Genf og þess vegna séu þeir ekki bundnir af samkomulaginu þar.

Stjórnvöld á Vesturlöndunum hafa sagt að aðskilnaðarsinnarnir séu á vegum rússneskra stjórnvalda en því hafa Rússar harðneitað.

Sergi Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, sakaði um helgina stjórnvöld í Kænugarði um brjóta samkomulagið fræga. Hann sagði að Úkraínumenn hefðu ekki staðið við loforð sitt um að veita þeim aðskilnaðarsinnum, sem hafa lagt undir sig opinberar byggingar í austurhluta Úkraínu, sakaruppgjöf. 

Frá Slovíansk í austurhluta Úkraínu.
Frá Slovíansk í austurhluta Úkraínu. AFP
AFP
AFP
AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert