Rússar svara af fullri hörku

Hermaður í bænum Donetsk í Úkraínu þar sem aðskilnaðarsinnar hafa …
Hermaður í bænum Donetsk í Úkraínu þar sem aðskilnaðarsinnar hafa hernumið opinberar byggingar. AFP

Rússlar munu svara af fullri hörku ef ráðist verður á svæði þar sem þeir eiga hagsmuna að gæta, sagði Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, í dag. Þá ítrekaði hann að stjórnvöld í Úkraínu þyrftu að draga herlið sitt til baka frá austurhluta landsins. 

Hann bar aðstæðurnar saman við ástandið í Georgíu 2008 þegar Rússar brugðust af hörku við tilraunum Georgíu til þess að ná aftur yfirráðum í héraðinu Suður-Ossetíu. Rússar sendu þá þúsundir hermanna inn í héraðið sem leiddi að lokum til mikilla átaka og mannfalls, þ.á m. meðal óbreyttra borgara. 

„Ef ráðist verður á okkur munum við án efa svara fyrir það,“ sagði Lavrov í sjónvarpsútsendingu í ríkissjónvarpi Rússlands.

Talið er að um 40 þúsund rússneskir hermenn bíði nú átekta við landamæri Úkraínu í austri. Bandaríkjaher tók að senda um 600 bandaríska hermenn á svæðið í dag. 150 bandarískir hermenn komu til Póllands í dag en hinir verða sendir til Eistlands, Litháens og Lettlands á næstu dögum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert