Hyggst greiða þriðjung skuldarinnar

Nicolas Maduro, forseti Venesúela, fyrir miðju.
Nicolas Maduro, forseti Venesúela, fyrir miðju. AFP

Sósíalistinn Nicolas Maduro, forseti Venesúela, lofaði því í morgun að greiða milljarða Bandaríkjadala skuld venesúelska ríkisins við innflutningsfyrirtæki í landinu.

Mikill skortur hefur verið á ýmsum nauðsynjum í Venesúela á undanförnum misserum.

Innflutningsfyrirtækin segja að ríkið skuldi þeim þrettán milljarða Bandaríkjadala, jafnvirði um 1.460 milljarða króna á gengi dagsins í dag, en Maduro hyggst nú greiða þriðjung af þesssum skuldum.

Þó kom ekki fram í máli hans hvað skuldin væri há og hvenær nákvæmlega hann hygðist greiða hana.

Alda mótmæla hefur breiðst um landið á seinustu mánuðum. Íbúar Venesúela eru afar ósáttir við hvernig ríkisstjórn Maduros hefur haldið á málunum. Verðbólgan mælist afar há í landinu, í kringum sextíu prósent, skortur á nauðsynjum er mikill og þá eru jafnframt afar ströng fjármagnshöft við lýði.

Mótmælendur krefjast þess að Maduro segi af sér, en hann hefur ekki orðið við því. Þess í stað hefur hann reynt að sölsa til sín enn frekari völd.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert