Leitin gæti haldið áfram í mörg ár

Minningaveggur um hin 239 sem hurfu með flugi MH370 hefur …
Minningaveggur um hin 239 sem hurfu með flugi MH370 hefur verið settur upp á Metro Park hótelinu í Peking, þar sem aðstandendur margra þeirra sem er saknað koma saman. AFP

Forsætisráðherra Malasíu greindi frá því í dag að eftir helgi megi eiga von á skýrslu með frumniðurstöðum rannsóknar á hvarfi flugvélarinnar MH370. Sjö vikur eru liðnar en hvorki tangur né tetur hefur fundist og eru leitarmenn orðnir örvæntingarfullir.

Najib Razak, forsætisráðherra Malasíu, sagði í sjónvarpsviðtali við CNN í dag að frumskýrsla verði birt almenningi í næstu viku. Skýrslan mun þegar hafa verið send til Alþjóðaflugmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna (ICAO).

Fjarstýrði kafbáturinn Bluefin-21 hélt í sinn 12. leiðangur á botn Indlandshafs í dag en vonin dvínar því hin umfangsmikla leit hefur enn engan árangur borið. Kafbáturinn hefur þegar kortlagt 90% af leitarsvæðinu þar sem talið var að vélin hefði farið niður.

Malasísk og áströlsk stjórnvöld segjast vinna að langtímaáætlun fyrir leitina, sem gæti haldið áfram mánuðum og jafnvel árum saman.

Aðstandendur reiðir 

Vaxandi reiði er meðal aðstandenda þeirra 239 sem saknað er um borð. Sarah Bajc, eiginkona farþegans Philip Wood, sagði í samtali við CNN í dag að aðstandendum líði eins og malasísk stjórnvöld komi fram við þau eins og andstæðing, frekar en sem bandamenn með það sameiginlega markmið að leysa ráðgátuna.

„Við þurfum að byrja upp á nýtt,“ sagði Bajc í samtali við CNN. Hún segir aðstandendur þó „ekkert endilega“ telja að stjórnvöld haldi einhverju leyndu fyrir þeim. „Við höfum seti sitthvoru megin við borðið. Þeir halda stuttan fund, segja okkur hvað þeir vita og við spyrjum spurninga. Þetta er bara ekki að virka. Ég held að við þurfum að byrja frá byrjun, setjast niður saman og eiga uppbyggilegt samtal.“

Malasísk stjórnvöld fullyrða að þau hafi ekkert að fela og reyni sitt ítrasta til að finna svör.

Hvað ef engin svör fást?

Spurningin sem fæstir vilja setja fram er þó: Hvað ef flugvélin finnst aldrei?

Frá upphafi hefur flestum þótt óhugsandi að Boeing 777 farþegaþota með 239 um borð geti hreinlega horfið sporlaust, en nú þegar 48 dagar eru liðnir án þess að fundist hafi svo mikið sem brak eða olíubrák virðast líkurnar aukast á að sú verði raunin.

Ljóst er að það mun verða aðstandendum mikið hvalræði fái þeir aldrei svör við því hvað varð um ástvini þeirra. Sömuleiðis mun hvarf flugs MH370 teljast meðal mestu ráðgátna allra tíma, skili leitin engum árangri.

Þá má búast við því að óteljandi samsæriskenningar verði áfram settar fram um örlög flugvélarinnar og fólksins sem hún bar, þar til hið sanna kemur í ljós.

Elizabeth Vonfinster hjá ástralska flughernum á heimleið eftir leiðangur um …
Elizabeth Vonfinster hjá ástralska flughernum á heimleið eftir leiðangur um leitarsvæðið á Indlandshafi. Ástralir hafa yfirumsjón með leitaraðgerðum. AFP
Kínverskir aðstandendur farþega um borð í horfnu flugvélinni hafa bækistöð …
Kínverskir aðstandendur farþega um borð í horfnu flugvélinni hafa bækistöð á Metro Park hótelinu í Peking þar sem haldir eru reglulegir fundnir, en vonin dvínar um að nokkuð finnist. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert