Sýrlenskir flóttamenn hlæja dátt

Ærlegt hláturskast leysir endorfín úr læðingi í heilanum sem framkallar líkamlega vellíðan og dregur úr streitu. Þetta sýna rannsóknir. Sýrlensku flóttafólki í Líbanon stendur nú til boða að sækja tíma í hláturjóga þeim til heilsubótar.

Sjúkraþjálfarinn Liliane Akiki á frumkvæði að hláturjóganu í sýrlensku flóttamannabúðunum. Hún segir að hlátur hafi ýmsan ávinning, ekki síst fyrir flóttafólkið sem er heimislaust og hefur flúið stríð og hörmungar. 

„Það má kalla þetta besta meðalið. Hlátur er ekki dýr, þú getur stundað hann hvar sem er og hann er góður fyrir heilsuna.“

Dr. Katan Mataria, læknir á Indlandi, er upphafsmaður hlátursjóga og hefur breitt út boðskapinn um allan heim. Hans boðskapur er sá að það þurfi ekki alltaf að vera eitthvað fyndið til þess að hafa ástæðu til að hlæja.

Sjálfur segist hann ekki mikill húmoristi en áður en hann fór af stað með hláturjóga gerði hann ýmsar rannsóknir og komst m.a. að því að líkaminn geri ekki greinarmun á gervihlátri og raunverulegum hlátri. Afleiðingarnar af reglulegum hlátri séu m.a. minni streita, sterkara ónæmiskerfi og bættari melting.

„Og svo er það líka þannig að gervihlátur breytist í innilegan hlátur eftir örstutta stund.“

„Hlátur er það heilbrigðasta sem þú gerir - það er besta meðalið,“ sagði Kataria í samtali við Afp fréttastofuna árið 2012.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert