Sagðir undirbúa kjarnorkusprengingu

Kim Jong-Un, leiðtogi Norður-Kóreu.
Kim Jong-Un, leiðtogi Norður-Kóreu. AFP

Nýjar gervihnattamyndir benda til þess að stjórnvöld í Norður-Kóreu séu að undirbúa fjórðu kjarnorkusprengingu sína neðanjarðar, að mati bandarísku hugveitunnar US-Korea hjá John Hopkins háskólanum í Washington.

Norður-Kóreumenn hafa áður sprengt kjarnorkusprengjur neðanjarðar árin 2006, 2009 og 2013.

Í nýrri skýrslu frá hugveitinni kemur fram að gervihnattamyndir frá því á miðvikudag af helsta kjarnorkutilraunasvæðinu í Norður-Kóreu bendi til þess að Norður-Kóreumann séu „líklega“ að undirbúa stóra sprengingu.

Áður hefur suður-kóreska varnarmálaráðuneytið varað við því sama.

„Við teljum það vera möguleika að þeir sprengi kjarnorkusprengju óvænt eða að þeir bara þykist sprengja kjarnorkusprengju,“ sagði Kim Min-Seok, talsmaður suður-kóreska varnarmálaráðuneytisins, við AFP.

Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, er um þessar mundir í heimsókn í Austur-Asíulöndunum. Hann mun meðal annars heimsækja Suður-Kóreu og dvelja þar í tvo daga. Margir stjórnmálaskýrendur telja að vegna heimsóknar forstans vilji stjórnvöld í Norður-Kóreu sýna mátt sinn og megin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert