Viðkvæmum gögnum um Breivik stolið

Geir Lippestad og Anders Breivik við réttarhöldin yfir þeim síðarnefnda.
Geir Lippestad og Anders Breivik við réttarhöldin yfir þeim síðarnefnda. AFP

Mjög viðkvæmum gögnum um norska fjöldamorðingjann Anders Behring Breivik var stolið úr höfuðstöðvum norsku lögreglunnar aðeins nokkrum vikum eftir að hann myrti 77 manns í Osló höfuðborg Noregs og á eyjunni Útey í nágrenni borgarinnar 22. júlí 2011.

Fram kemur í frétt norska dagblaðsins Dagsavisen að þjófnaðurinn sé talinn hafa átt sér stað aðfararnótt 23. ágúst en verjandi Breiviks, Geir Lippestad, frétti fyrst af því á dögunum að gögnunum hafi verið stolið. Gagnrýnir hann harðlega í samtali við blaðið að staðið hafi verið að málum með þessum hætti. Það hefði klárlega átt að upplýsa hann um það strax að 42 blaðsíðna skýrslu varðandi málið hefði verið stolið.

Skýrslan sem um ræðir er útprentun á yfirheyrslum sem fram fóru 9. og 10 ágúst 2011 þar sem Breivik útskýrði meðal annars hvernig hann hefði haft í hyggju að afhöfða fyrrverandi forsætisráðherra Noregs, Gro Harlem Brundtland, með byssustingi, taka það upp á upptökuvél og birta það síðan á netinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert