Myrtur vegna sambands við stúlku af æðri stétt

Stéttaskiptin er rótgróin í IndIandi og samgangur milli erfðastétta lítt …
Stéttaskiptin er rótgróin í IndIandi og samgangur milli erfðastétta lítt eða ekkert liðinn. mbl.is/afp

Hópur manna í Mumbai á Indlandi kyrkti táning og hengdi hann upp í tré þar sem hann hafði gert hosur sínar grænar fyrir stúlku af æðri þjóðfélagsstétt. 

Tveir mannanna, þar á meðal bróðir stúlkunnar, svo og táningur, hafa verið handteknir vegna morðsins á hinum 17 ára pilti á mánudag í þorpinu Kharda í héraðinu Maharashtra í vesturhluta Indlands. Lögreglan kveðst leita sjö manna til viðbótar sem viðriðnir voru morðið.

„Bróðir stúlkunnar og nokkrir vinir hans sáu parið sitja á akri. Á þeim sauð af bræði. Þeir réðust á drenginn, börðu hann og kyrktu með reipi. Síðar hengdu þeir hann upp í tré,“ segir æðsti yfirmaður rannsóknarlögreglunnar.

Erfðastéttaskipulagið er rótfast í mörgum hlutum Indlands og gegnsýrir daglegt líf, ekki síst á afskekktum svæðum og til sveita. Hjónavígslur, menntun, atvinna og landareign stjórnast af því, jafnvel þótt mismunun á grundvelli erfðastétta sé bönnuð með lögum í Indlandi.

Þá hafa svonefnd „heiðursmorð“ verið algeng um aldir í Indlandi, þar sem ungt fólk er vegið vegna andstöðu fjölskyldna þeirra, ættbálka eða samfélög við samdrátt þeirra.

Yfirvöld segja að morðið á táningnum á mánudag hafi ekki verið heiðursmorð því það var framið í stundarbrjálæði en ekki af fyrirfram ákveðinni ráðagerð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert