Þrýsti á stjórnvöld í Kænugarði

Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands.
Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands. AFP

Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, telur að stjórnvöld í Washington eigi - með áhrifamætti sínum - að þrýsta á úkraínsk stjórnvöld að láta af hernaðaðgerðum sínum í austurhluta Úkraínu. 

Átök hafa magnast í austurhlutanum á undanförnum dögum. Oleks­andr Túrt­sjínov, for­seti Úkraínu, lýsti fyrr í dag yfir tveggja daga þjóðarsorg í land­inu. Fleiri en fimmtíu manns féllu í átök­um sem brutust út á milli aðskilnaðarsinna, sem eru hliðhollir Rússum, og úkraínskra hersveita í borgunum Odessa og Slavíansk í gær.

Lavrov sagði í tilkynningu sem hann sendi frá sér í dag að mikilvægt væri að auka hlutverk Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu í sáttaviðræðunum. Eftirlitsmenn á vegum stofnunarinnar gætu hjálpað til við að draga úr spennunni í landinu.

Lavrov ræddi við John Kerry, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, símleiðis í dag. Hann hvatti Kerry til að þrýsta á stjórnvöld í Kænugarði að draga herlið sitt frá austurhlutanum. Hernaðaraðgerðir þeirra hefðu gert vonda stöðu enn verri og jafngiltu stríði gegn eigin borgurum, að því er segir í frétt AFP.

Lavrov þvertók einnig fyrir það að aðskilnaðarsinnarnir væru á vegum rússneskra stjórnvalda. Enginn fótur væri fyrir slíkum ásökunum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert