„Vilji guðs“ að stúlkurnar verði seldar

Liðsmenn Boko Haram í Nígeríu, sem eru samtök herskárra íslamista, hafa hótað að selja mörg hundruð stúlkur sem þeir rændu fyrir um þremur vikum. Bandarísk stjórnvöld segja líklegt að þegar sé búið að flytja margar þeirra úr landi.

Abubakar Shekau, leiðtogi samtakanna, sendi frá sér myndskeið sem AFP-fréttastofan fékk. Þar viðurkennir hann að liðsmenn Boko Haram hafi rænt stúlkunum. Hann segir að stúlkurnar eigi ekki að vera í skóla heldur eigi þær að giftast.

„Guð skipaði mér að selja þær, því hann á þær og ég mun framfylgja boðum hans,“ segir Shekau í myndskeiðinu.

Fram kemur á vef breska ríkisútvarpsins að talið sé að um 230 stúlkur sé enn saknað. Hafa stjórnvöld í Nígeríu verið harðlega gagnrýnd vegna málsins. 

Stúlkunum var rænt aðfararnótt 14. apríl í Chibok en þar stunduðu þær nám í heimavistarskóla.

Fram kemur á vef breska ríkisútvarpsins að þúsundir hafa fallið í landinu frá því Boko Haram hóf uppreisn árið 2009. 

Boko Haram þýðir „vestræn menntun er bönnuð“. Samtökin hafa ráðist á margar menntastofnanir í norðurhluta Nígeríu. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert