Réttað yfir samkynhneigðum í Úganda

Kim Mukisa og Jackson Mukasa voru handteknir í janúar og …
Kim Mukisa og Jackson Mukasa voru handteknir í janúar og ákærðir fyrir að brjóta lög gegn samkynhneigð. AFP

Tveir menn sem ákærðir eru fyrir að hafa stundað kynlíf hvor með öðrum mættu fyrir dómara í Kampala, höfuðborg Úganda í dag. Mennirnir eru þeir fyrstu sem réttað er yfir síðan samþykkt voru hörð lög gegn samkynhneigð í landinu.

Þeir Kim Mukisa og Jackson Mukasa voru handteknir í janúar. Að sögn Afp er búist við því að þeir játi báðir sekt og verði látnir lausir á skilorði.

Til þess hafa öll mál af þessum toga verið felld niður, vegna skorts á sönnunargögnum. Nú segjast saksóknarar hinsvegar hafa vitni og krefjast þess að réttað verði yfir mönnunum.

Samkvæmt lögunum, sem Yoweri Museveni forseti Úganda staðfesti í febrúar, er hægt að dæma „síbrotamenn“ í lífstíðarfangelsi fyrir samkynhneigð. Lögin kveða einnig á um tilkynningaskyldu til yfirvalda vegna grunsemda um samkynhneigð, og banna hvers kyns jákvæða umfjöllun um eða stuðning við samkynhneigð.

Lögin hafa verið gagnrýnd harðlega af alþjóðasamfélaginu og líkti John Kerry, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, þeim við lög nasista gegn gyðingum í Þýskalandi. Sumir segja að Museveni hafi staðfest lögin til þess eins að vinna sér inn hylli fyrir komandi forsetakosningar 2016. Hann mun þá hafa verið við völd í 30 ár.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert