Fleiri og fleiri vilja úr ESB

Áróðursspjöld í Marseille vegna kosninganna til Evrópuþingsins 25. maí nk.
Áróðursspjöld í Marseille vegna kosninganna til Evrópuþingsins 25. maí nk. mbl.is/afp

Frökkum sem vilja segja skilið við Evrópusambandið (ESB) fjölgar jafnt og þétt. Traust til sambandsins þverr og styður einungis 51% kjósenda veru Frakka í sambandinu í dag, miðað við 67% fyrir áratug.

Þetta eru niðurstöður skoðanakönnunar sem CSA-stofnunin gerði fyrir sjónvarpsstöðina BFMTV og blaðið Nice Matin og birt var í morgun. Frökkum sem vilja úr ESB hefur fjölgað hratt á undanförnum áratug. 

Afleiðingar þessa eru vaxandi efasemdir um samþjöppun valds í höfuðstöðvum ESB í Brussel, segir franska blaðið Le Figaro. Árið 2004 sögðust aðeins 25% Frakka ákveðið vera andvígir veru Frakklands í ESB en þeim hefur fjölgað í 38% nú. Í þeim hópi eru þeir sem minna mega sín í meirihluta. Þannig segjast einungis 30% verkamanna vera Evrópusinnar, samanborið við 78% stjórnenda og  62% lífeyrisþega.

Næstum annar hver aðspurðra, eða 48%, sagðist „fyllast kvíða“ við tilhugsunina um frekari samruna ESB-landanna, 10% sögðust honum andvíg en 13% höfðu ekki skoðun á því. Aðeins 18% sögðust sannfærð um ágæti frekari samruna og 2% voru einkar áfram um að hann næði fram að ganga. Flokkur þeirra síðasttöldu hefur skroppið saman á áratug því 2004 lýstu 46% sig áfram um frekari samruna.

Í könnuninni sögðu 70% aðspurðra að aðildin að ESB hefði haft í för með sér aukið atvinnuleysi, dregið hefði úr félagslegri vernd, innflytjendum fjölgað, sjálfsímynd þjóðarinnar glatast og menning hennar. Sagði 41%  það hafa sýnt sig að veran í ESB hefði torveldað lausn vandamála tengdri kreppunni. Aðildina sögðu 25% hafa verið til bóta í þeim efnum.

Hálfur mánuður er til Evrópuþingskosninganna og nýjustu skoðanakannanir sýna, að fylgi Þjóðfylkingar Marine Le Pen sé mest en fylkingin er andvíg veru Frakklands í ESB og vill að frankinn verði aftur tekinn upp og evrunni kastað fyrir róða.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert